Mótahald yngri flokka er að skýrast og óskar mótanefnd eftir áhugasömum mótshöldurum fyrir tímabilið 2021-2022.
Umsóknir mótshaldara þurfa að innihalda:
- Nafn félags sem sækir um, netfang og símanúmer ábyrgðaraðila umsóknar.
- Hvaða mót félagið óskar eftir að halda.
- Fjöldi valla sem félag getur boðið upp á á keppnissvæði. Ef um fleiri en eitt keppnissvæði er að ræða þá þurfa að fylgja upplýsingar um fjölda valla á hverjum keppnisstað.
Héraðsmót
Líkt og í fyrra þá ætlum við að halda áfram með héraðsmótsfyrirkomulagið enda heppnaðist það vel. Sama fyrirkomulag verður með héraðsmótin í ár og í fyrra en mótshaldari hverju sinni hefur heimild til að útfæra mótið eftir sínu höfði hverju sinni. Mótin eru upphaflega hugsuð fyrir U8, U10 og U12 en við hvetjum mótshaldara til að vera opinn fyrir því að bjóða eldri aldurshópum einnig í heimsókn ef tækifæri gefst til.
Mótanefnd í samráði við afreksstjóra BLÍ hefur ákveðið að fjölga mótunum úr þremur í sex á milli ára. Eftirtaldar helgar eru merktar héraðsmótunum en um er að ræða dagsmót og því velur mótshaldari sér dag sem hentar. Gott er að skoða viðburðardagatal BLÍ áður en dagur er ákveðin þar sem einhverjir leikir í úrvalsdeild og 1. deild eru settir á helgarnar.
Héraðsmót #1 – 2.-3. október
Héraðsmót #2 – 27.-28. nóvember
Héraðsmót #3 – 18.-19. desember
Héraðsmót #4 – 15.-16. janúar
Héraðsmót #5 – 5.-6. mars
Héraðsmót #6 – 23.-24. apríl
Íslandsmót
Mótanefnd BLÍ hvetur aðildarfélög til að skrá U-liðin sín til leiks í Íslandsmót neðri deilda til að fjölga verkefnum fyrir krakka á aldrinum 16-20 ára. Enn eru nokkur laus pláss í 3. deild karla, 5. og 6. deild kvenna sem væri hægt að úthluta til U-liða en þær umsóknir þurfa að berast fyrir 10. ágúst nk. Reglan um fyrstur kemur fyrstur fær er í gildi hér þar sem einungis 12 lið að hámarki geta verið í hverri deild.
Íslandsmót #1 – 30.-31. október
U14 og U12 eru þeir aldurshópar sem munu taka þátt þessa helgina. Mótanefnd er að skoða útfærslu með U15/U16 en það er ekkert ákveðið sem stendur. Frekari tilkynning verður send út í ágúst þegar mótanefnd hefur aflað sér allra þeirra upplýsinga til að taka ákvörðun.
Íslandsmót #2 – 7.-8. maí
U12, U10 og U8
Íslandsmót #3 – 14.-15. maí
6 manna blak – U-flokka skipting tilkynnt í ágúst.
Bikarmót
6 manna blak –Bikarmót yngri flokka fer fram 12.-13. febrúar. U-flokka skipting tilkynnt í ágúst en gert ráð fyrir sömu aldursflokkaskiptingu og á Íslandsmóti í 6 manna blaki. Stefnt er að því að úrslitaleikir fari fram á BIKARHELGI BLÍ helgina 1.-3. apríl.