Lög BLÍ

1. gr.

Blaksamband Íslands (BLÍ) er æðsti aðili um öll blakmál innan vébanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ).

2. gr.

Blaksamband Íslands (BLÍ) er samband héraðssambanda/íþróttabandalaga og sérráða þeirra, og eru þau öll félög innan ÍSÍ, er iðka, æfa eða keppa í blaki, aðilar að BLÍ.

2.1 gr.

Blaksamband Íslands er æðsti aðili innan ÍSÍ um sérfræðileg málefni íþróttagreinar sinnar.

3. gr.

Starf BLÍ er í meginatriðum:

a) Að hafa yfirumsjón allra íslenskra blakmála.

b) Að vinna að eflingu blaks í landinu og koma fram erlendis fyrir hönd blaksins. Með hæfilegum fyrirvara skal tilkynna framkvæmdastjórn ÍSÍ áætlanir og ákvarðanir um samskipti við útlönd.

4. gr.

Málefnum BLÍ stjórna:

a) Blakþingið.

b) Stjórn BLÍ.

5. gr.

Blakþingið fer með æðsta vald í málefnum BLÍ.

Blakþing sitja fulltrúar frá aðildarfélögum sem eiga lið í Íslandsmóti og sambandsaðilum BLÍ.

Fulltrúafjöldi aðildarfélaga miðast við efsta lið félags í Íslandsmóti þannig að:

1. Félag með lið í úrvalsdeild hefur 3 fulltrúa

2. Félag með lið í 1. deild hefur 2 fulltrúa

3. Félag með lið í 2. deild eða neðar hefur 1 fulltrúa

Auk þess fær félag með fullt 6 manna lið í Íslandsmóti yngriflokka 1 fulltrúa. Hvert félag getur haft að hámarki 4 fulltrúa

Hvert hérðassamband/íþróttabandalag sem hefur blak innan sinna vébanda á rétt á einum fulltrúa óháð iðkendafjölda.

Á blakþingi hafa aðeins þingfulltrúar atkvæðisrétt þó eingöngu fulltrúar aðildarfélaga og sambandsaðila sem eru skuldlausir við BLÍ.

Heimilt er að blakþing sé pappírslaust ef hægt er að koma því við.

Þingið skal haldið árlega.

Stjórn BLÍ skal boða það með sannanlegum hætti með minnst eins mánaðar fyrirvara.

Málefni, sem sambandsaðilar óska, að tekin verði fyrir á þinginu, skulu tilkynnt stjórn BLÍ minnst 21 degi fyrir þingið. Þá skal stjórn BLÍ tilkynna sambandsaðilum dagskrá þingsins ásamt tillögum og lagabreytingum, sem borist hafa, í síðasta lagi 14 dögum fyrir þing. Blakþingið er lögmætt, ef löglega er til þess boðað.

6.gr.

Á blakþinginu hafa fulltrúar einir atkvæðisrétt en auk þeirra eiga rétt á þingsetu og hafa málfrelsi og tillögurétt:

a) Stjórn BLÍ, varastjórn og skoðunarmenn reikninga

b) Framkvæmdastjórn ÍSÍ.

c) Fastráðnir starfsmenn BLÍ og ÍSÍ.

d) Fulltrúar blakdómarafélaga.

e) Allir nefndarmenn BLÍ.

f) Ævifélagar BLÍ.

g) Heiðursformenn BLÍ

Auk þess getur BLÍ boðið öðrum aðilum þingsetu ef hún telur ástæðu til. Aðeins sá sem er í félagi sem iðkar blak innan sérráða eða héraðssambands, er kjörgengur fulltrúi þess á blakþingi. Hver fulltrúi hefur aðeins 1 atkvæði. Þegar langt er og dýrt að sækja þingið eða annar fulltrúi veikist eða forfallast á síðustu stundu, þá má fulltrúi fara með fleiri en 1 atkvæði, þó að hámarki 3, en aðeins með atkvæði þess aðila, sérráðs eða héraðssambands (félags) sem hann er fulltrúi fyrir. Þó gildir þessi undanþága ekki um fulltrúa þeirra aðila, sem heima eiga þar sem þingið er háð. Umboð, sem jafnframt er beiðni til þingsins um að fulltrúi megi fara með fleiri en 1 atkvæði, verður að vera skriflegt og að vera frá stjórn hlutaðeigandi sambandsaðila.

7. gr.

Aukaþing má halda, ef nauðsyn krefur eða helmingur sambandsaðila óskar þess. Alla boðunar- og tilkynningarfresti til aukaþings má hafa helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa sem er látinn, veikur eða fluttur úr héraðinu eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera laga- og leikreglnabreytingar og ekki kjósa stjórn, nema bráðabirgðastjórn ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum að öðrum orsökum. Að öðru leyti gilda sömu reglur um það og um reglulegt blakþing.

8. gr.

Störf blakþings eru:

1. Þingsetning

2. Kosnir fastir starfsmenn þingsins

3. Kosnar fastar nefndir:

a. Kjörbréfanefnd

b. Fjárhagsnefnd

c. Laganefnd

d. Allsherjarnefnd

e. Öldunganefnd

4. Stjórn gefur skýrslu

5. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga sambandsins til samþykktar.

6. Stjórn leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár

7. Lagðar fram laga- og leikreglnabreytingar, þær sem hafa komið.

8. Teknar til umræðu aðrar tillögur og önnur mál, sem borist hafa stjórn.

9. Þinghlé

10. Nefndarálit og tillögur og atkvæðagreiðsla um þær.

11. Ákveðið gjald ævifélaga

12. Önnur mál

13. Kosning stjórnar, varastjórnar, skoðunarmenn reikninga, áfrýjunardómstól BLÍ og fulltrúa á íþróttaþing

14. Þingslit

Fái fleiri en þeir sem kjósa á um jafnmörg atkvæði, skal kjósa um þá að nýju, bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum, nema um lagabreytingar sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta atkvæða. Þingið getur með 2/3 atkvæða viðstaddra fulltrúa leyft að taka fyrir mál sem komið er fram eftir að dagskrá þingsins var send sambandsaðilum (skv. 5. gr.3.málsgr.).

Ársskýrslu BLÍ, sem stjórnin skal leggja fjölritaða fyrir þingið, svo og ágrip af fundargerðum þingsins, skal senda framkvæmdarstjórn ÍSÍ og sambandsaðilum BLÍ innan tveggja mánaða frá þingslitum.

9.gr.

Stjórn BLÍ skipa 5 menn: Formaður, varaformaður, meðstjórnandi, gjaldkeri og fundaritari. Skal kjósa bundinni leynilegri kosningu, formann fyrst, síðan meðstjórnendur, sem skipta með sér störfum. Formaður er kosinn til tveggja ára í senn, sem og aðrir stjórnarmenn, og ganga tveir menn úr stjórninni á hverju ári. Kjósa skal einnig 3 menn í varastjórn til eins árs og taka þeir sæti ef aðalmaður forfallast og koma inn í sömu röð og þeir voru kosnir.

Tilkynning um framboð til embættis formanns og stjórnar BLÍ skal berast skrifstofu BLÍ minnst 14 dögum fyrir þing. Þó er heimilt að samþykkja framboð sem fram kemur síðar hafi nægjanlegur fjöldi ekki tilkynnt framboð sitt innan tilskilins frests.

Stjórninni er heimilt að ráða launað starfsfólk.

Aðsetur stjórnarinnar er í Reykjavík.

Lok reikningsárs miðast við almanaksár.

10. gr.

Starfssvið stjórnar BLÍ er:

a) Að framkvæma ályktanir blakþingsins.

b) Að senda ÍSÍ árlega starfsskýrslu og aðrar lögboðnar skýrslur og tilkynningar.

c) Að fylgjast með því að lög og leikreglur BLÍ séu haldin.

d) Að setja nauðsynleg bráðabirgðaákvæði.

e) Að breyta og setja reglugerðir milli ársþinga samkvæmt reglugerð um breytingar á reglugerðum.

f) Að raða niður og ákveða stað og tíma fyrir Íslandsmót í öllum flokkum.

g) Að úthluta þeim styrkjum til blaks, sem BLÍ fær til umráða.

h) Að vera fulltrúi blakíþróttarinnar á erlendri grundu og sjá um að reglur varðandi greinina séu í samræmi við alþjóðareglur.

i) Að vinna að stofnun nýrra sérráða og efla á annan hátt viðkomandi sérgrein í landinu.

11. gr.

Formaður BLÍ boðar stjórnarfundi og stjórnar þeim.

12. gr.

Blakráðin (héraðssamböndin) eru milliliður milli félaga sinna og stjórnar BLÍ. Þau skulu og senda henni allar skýrslur um mót sem haldin eru innan umdæmisins. Þessar skýrslur skulu sendar innan mánaðar eftir að mótinu lauk. Ársskýrslur sínar um störf sérráðsins (héraðssambandsins) og tölu virkra blakiðkenda í umdæminu, skulu þau senda stjórn BLÍ fyrir 1. ágúst ár hvert.

13. gr.

Stjórn BLÍ hefur frjálsan aðgang að öllum blakmótum og sýningum, sem fram fara innan vébanda BLÍ. Einnig á hún rétt á að sitja aðalfundi sérráða, dómarafélaga og héraðssambanda sem eru aðilar að sambandinu.

14. gr.

Ævifélagar BLÍ geta þeir orðið sem stjórn BLÍ samþykkir. Stjórn BLÍ ákveður réttindi ævifélaga hverju sinni. Heiðursfélaga BLÍ má stjórn BLÍ kjósa ef hún er einhuga um það.

Stjórn BLÍ er heimilt að tilnefna heiðursformenn Blaksambands Íslands.

Heiðursformenn BLÍ hafa rétt til setu á blakþingum og hafa þar málfrelsi en ekki atkvæðisrétt. Heiðursformenn BLÍ koma fram fyrir hönd sambandsins þegar stjórn þess eða formaður kunna að óska og fela þeim það.

Árlega skal Blakþingi vera tilkynnt um þá einstaklinga sem stjórn BLÍ tilnefnir sem Heiðursformenn.

15. gr.

Tillögur um að leggja BLÍ niður má aðeins taka fyrir á lögmætu blakþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu, þarf minnst 2/3 hluta atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt, skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þingskýrslunni og tillagan síðan látin ganga til næsta reglulega þings. Verði tillagan þá samþykkt aftur, er það fullgild ákvörðun um að leggja BLÍ niður. Skal þá afhenda ÍSÍ eignir BLÍ til varðveislu.

16. gr. Aga- og úrskurðarnefnd BLÍ

Aga- og úrskurðarnefnd BLÍ úrskurðar í öllum agamálum BLÍ  og er jafnframt fyrsta dómstig í kærumálum, sem upp koma innan blakhreyfingarinnar.

Aga- og úrskurðarnefnd BLÍ skal skipuð þremur mönnum og a.m.k. einum til vara og skal a.m.k. einn aðalmanna vera löglærður.Stjórn BLÍ skipar einstaklinga í aga- og úrskurðarnefnd

Nefndin starfar skv. reglugerð BLÍ um aga- og úrskurðarnefnd og skulu ávallt þrír taka þátt í úrskurðum nefndarinnar.

Nefndin úrskurðar um viðurlög samkvæmt lögum þessum, reglugerð um aganefnd BLÍ og eftir atvikum öðrum reglugerðum BLÍ í málum gegn aðildarfélögum, forráðamönnum, leikmönnum, þjálfurum, starfsmönnum, áhorfendum og öðrum þeim sem eru innan vébanda aðildarfélaga BLÍ.

17. gr. Áfrýjunardómstóll BLÍ

Áfrýjunardómstóll BLÍ starfar skv. reglugerð um áfrýjunardómstól BLÍ. Dómstóllinn skal skipaður þremur löglærðum einstaklingum og a.m.k. einum löglærðum til vara.

Dómarar skulu kosnir á blakþingi til setu fram að næsta blakþingi. Dómstóllinn kýs sér forseta sjálfur. Bjóði ekki nægur fjöldi löglærða einstaklinga sig fram á blakþingi skal Stjórn BLÍ tilnefna löglærða einstaklinga til setu fram að næsta þingi.

Um kærufrest og þingfestingargjald fer samkvæmt reglugerð um Áfrýjunardómstól BLÍ.

18. gr. Lögsaga

Dómstóllinn tekur fyrir áfrýjanir vegna úrskurða aga- og úrskurðarnefndar sem ekki eru endanlegir samkvæmt reglugerð um aga- og úrskurðarnefnd. Ákvarðanir dómstólsins eru endanlegar og bindandi fyrir málsaðila. Þó er heimilt að áfrýja til áfrýjunardómstóls ÍSÍ þeim málum sem hafa almennt gildi fyrir íþróttahreyfinguna í heild.

19. gr. Nánar um aga- og úrskurðarnefnd BLÍ og áfrýjunardómstól BLÍ

Aga- og úrskurðarnefnd BLÍ og áfrýjunardómstóll BLÍ hafa fullnaðarlögsögu yfir þeim málefnum sem koma upp innan vébanda BLÍ, sem varða lög og reglugerðir BLÍ eftir því sem við á.

Aga- og úrskurðarnefnd BLÍ og áfrýjunardómstóll BLÍ skulu lúta lögum þessum og reglugerðum og skulu öll ágreiningsmál gagnvart aðildarfélögum BLÍ, forráðamönnum félaganna, leikmönnum, þjálfurum, liðsstjórum og öðrum þeim sem eru innan vébanda aðildarfélaga BLÍ rekin fyrir aga- og úrskurðarnefnd BLÍ og áfrýjunardómstól BLÍ nema það sé sérstaklega heimilað í lögum eða reglugerðum BLÍ að reka málið fyrir nefndum innan BLÍ.

20. gr. Gildistaka

Lög þessi öðlast gildi við samþykki þeirra á blakþingi í apríl 2023 og falla þá eldri lög úr gildi.

Samþykkt á ársþingi BLÍ þann 15. apríl 2023