Blakfólk ársins 2024 – Ævarr Freyr Birgisson og Sara Ósk Stefánsdóttir

Sara Ósk Stefánsdóttir og Ævarr Freyr Birgisson hafa verið valin blakkona og blakmaður ársins 2024.

Ævarr Freyr Birgisson er uppalinn í KA en  er nú á sínu sjöunda tímabili í dönsku deildinni (VolleyLigaen) með liði sínu Odense Vollleyball. Í vor varð Ævarr bæði Bikar- og Danmerkurmeistari með Odense annað árið í röð en hann á að baki hátt í 200 leiki í deildinni sem gerir hann einn af reynslumestu leikmönnum liðsins. Ævarr hefur leikið í stöðu kantsmassara síðustu tímabil en spreytir sig í stöðu frelsingja þetta tímabil og stendur liðið í öðru sæti deildarinnar á þessum tímapunkti.

Ævarr Freyr hefur leikið 48 leiki með Blaklandsliði íslands en þetta er í 4. sinn sem Ævarr hlýtur nafnbótina blakmaður árins. Þó að Ævarr sé sjaldnast hávaxnasti leikmaðurinn á velliunm þá er það tæknileg frammistaða og taktískt innsæi sem gerir hann að lykilleikmanni íslenska landsliðsins. Frammistaða hans í móttöku, leikfærni og leiðtogahæfileikar á vellinum hafa gert gæfumuninn síðustu ár í stígandi uppleið íslenska karlalandsliðsins. Ævarr er mikil fyrirmynd liðsfélaga sinna, er skuldbundinn liðinu og viljugur í að miðla reynslu sinni áfram.

Sara Ósk  Stefánsdóttir er uppalin í HK en er að spila sitt þriðja tímabil með Holte í Kaupmannahöfn og fjórða tímabilið sitt í Danmörku. Með Holte varð Sara Ósk Danmerkurmeistari vorið 2024 ásamt því að vera í öðru sæti í danska bikarnum. Hún hefur regluglega hlotið viðurkenningar með liði sínu yfir tímabilið og var hún m.a. kosin MVP í úrslitakeppni dönsku deildarinnar og CEV áskorendakeppninnar. Holte situr nú í efsta sæti VolleyLigaen.

Þetta er í fyrsta sinn sem Sara Ósk hlýtur titilinn en hún á  31 landsleik að baki, núna síðast í sterkri keppni kvennalandsliðsins þegar þær tóku þátt í SilverLeague CEV í fyrsta sinn. Sara er virkilega sterkur blokkari ásamt því að vera sterkur sóknarmaður af miðjunni. Hún skapar einnig mikla liðsheild inni á vellinum með reynslu sinni og leiðtogafærni.

Blaksambandið óskar Söru Ósk og Ævarri Frey innilega til hamingju með útnefninguna.

Myndir: MummiLú, Kim Leerskov, Patrick Dufreche/Volleyball Danmark