Ísland hefur í fyrsta sinn í sögunni tryggt sér þátttökurétt með fjórum landsliðum í strandblaki á lokamótum Evrópumeistaramóta. Bæði karla- og kvennalandslið Íslands í U17 og U19 aldursflokkum unnu til gullverðlauna á SCA mótaröðinni, sem fram fór í Andorra og á Írlandi, og þar með réttinn til að keppa í aðalkeppni EM U18 og EM U20 sumarið 2026.
Í U17 flokknum í Andorra sigruðu Ágúst Leó Sigurfinnsson og Markús Freyr Arnarsson í drengjaflokki eftir öruggan 2–0 sigur gegn Skotlandi í úrslitaleik. Hákon Freyr Arnarsson og Eiríkur Hrafn Baldvinsson tryggðu sér bronsverðlaun með 2–0 sigri á Færeyjum. Í stúlknaflokki mættust tvö íslensk lið í sjálfum úrslitaleiknum. Þar höfðu Anika Snædís Gautadóttir og Þorbjörg Rún Emilsdóttir betur í spennandi oddahrinu gegn Köru Margréti Árnadóttur og Kötlu Fönn Valsdóttur, sem tóku annað sætið.
Á SCA U19 mótinu í Dublin héldu íslensk lið áfram að gera garðinn frægan. Ágúst Leó Sigurfinnsson, nú með Emil Diatlovic,sigraðu karlaflokkinn. Í kvennaflokku unnu Helena Kristjánsdóttir og Sóldís Júlía Sigurpálsdóttir gull, en einnig náðu Hrefna Ágústa Marinósdóttir og Auður Pétursdóttir bronsverðlaunum með glæsilegri frammistöðu. Svanur og Sölvi Hafþórssynir voru einnig skammt frá því að komast í undanúrslit eftir spennandi leik gegn Andorra.
Þetta er einstakur árangur sem staðfestir sífellt vaxandi styrk íslensks strandblaks. Alls unnu íslensk lið til fjögurra gullverðlauna, auk silfurs og brons, og hefur aldrei áður jafn stór hópur íslenskra landsliða í blaki tryggt sér sæti í aðalkeppni EM.
„Þetta er stórt skref fyrir strandblak á Íslandi og sýnir hversu öflug ung kynslóð leikmanna er að vaxa upp í greininni. Við eigum nú heilt ár til að styðja við liðin og undirbúa þau vel fyrir Evrópukeppnina,“ segir Valgeir Bergmann, formaður strandblaksnefndar BLÍ.
Borja González Vicente, afreksstjóri BLÍ, segir árangurinn afrakstur mikillar vinnu en nú sé hún rétt að byrja:
„Að fjögur lið hafi tryggt sér þátttökurétt á lokamóti Evrópumeistaramóts er einsdæmi í íslensku blaki. Nú hefst markviss og metnaðarfull vinna við að undirbúa liðin fyrir EM 2026. Við höfum eitt ár til að móta æfingaáætlanir, skipuleggja undirbúning og tryggja faglegan stuðning í kringum hópana,“ segir Borja González Vicente, afreksstjóri BLÍ.
Árangur íslensku liðanna byggir á mikilli elju og góðu samstarfi en einnig á innviðum sem eru enn í mótun. Eina innanhússaðstaðan fyrir strandblak á Íslandi, Sandkastalinn, hefur skipt sköpum í undirbúningi landsliðanna og sýnt fram á mikilvægi þess að slík aðstaða sé til staðar allt árið.
„Nú þegar fjögur íslensk lið eru á leið á lokamót EM blasir við að við þurfum að efla umgjörðina enn frekar. Gullið er grafið í sandinum og við ætlum að nýta komandi mánuði til að leita til samstarfsaðila og styrktaraðila og byggja upp sterkt bakland í kringum verkefnið, bæði fjárhagslega og faglega. Þessu fylgir einnig sú áskorun um að bæta aðstöðu fyrir strandblak um land allt,“ segir Grétar Eggertsson, formaður BLÍ.
Blaksamband Íslands mun heiðra sigurliðin, sérstaklega á Hæfileikabúðum BLÍ og Aftureldingar sem haldnar verða að Varmá 22.-24. ágúst nk.
Þjálfari: Borja Gonzalez