Matthildur Einarsdóttir og Máni Matthíasson hafa verið valin blakkona og blakmaður ársins 2025 af Blaksambandi Íslands.
Matthildur Einarsdóttir
Matthildur Einarsdóttir er uppalin hjá HK og leikur á yfirstandandi tímabili með liðinu í Unbrokendeild kvenna, þar sem HK situr á toppi deildarinnar þegar liðið fer í jólafrí. Matthildur er uppspilari og hefur verið afar áberandi í leik liðsins, bæði í vörn og sókn. Hún er með eina bestu nýtingu uppspilara í deildinni og jafnframt þriðju bestu nýtingu uppgjafa.
Á vormánuðum lék Matthildur með Slavia Kooperativa EUBA Bratislava, þar sem liðið varð deildarmeistari og í 2 sæti í úrslitakeppninni í Slóvakíu. Áður hefur Matthildur leikið í efstu deildum í bæði Ungverjalandi og Danmörku.
Matthildur hefur leikið 50 landsleiki fyrir Íslands hönd og hlaut silfurmerki BLÍ þann 14. júní sl. fyrir það afrek. Hún tók þátt í CEV Silver League með íslenska landsliðinu, þar sem hún skilaði sterkum frammistöðum sem uppspilari og sýndi yfirvegaða stjórn og góða tengingu við sóknarmenn liðsins. Matthildur er einn besti uppspilari sem íslenska landsliðið hefur átt um langa hríð og lætur hún einnig til sín taka utan vallar, meðal annars með þjálfunarstörfum.

Máni Matthíasson
Máni Matthíasson er, líkt og Matthildur, uppalinn hjá HK. Hann lék með liðinu vorið 2025 þegar HK endaði í 6. sæti Unbrokendeildar karla eftir sterka endurkomu undir lok tímabilsins.
Máni leikur nú með Odense Volleyball í dönsku úrvalsdeildinni, þar sem liðið situr í 6. sæti þegar líður að lokum árs. Áður hefur hann einnig leikið í efstu deild í Noregi og næstefstu deild í Þýskalandi.
Máni hefur leikið 70 landsleiki fyrir Ísland og tók þátt í CEV Silver League og Smáþjóðaleikum Evrópu sumarið 2025. Karlalandsliðið er í uppbyggingarfasa og hefur Máni verið lykilmaður í sóknarleik liðsins undanfarin ár með sterka leikstjórn og mikla reynslu.
Á vormánuðum starfaði Máni sem nemi á skrifstofu Blaksambands Íslands, auk þess að þjálfa hjá HK. Hann hefur komið að skipulagi og þróun afreksstarfs í íslensku blaki samhliða því að vera í landsliðshópi um árabil. Máni er sannarlega fyrirmynd íslensks blakfólks, bæði innan vallar sem utan.

Blaksamband Íslands óskar Matthildi Einarsdóttur og Mána Matthíassyni innilega til hamingju með útnefninguna.