Ársþing BLÍ: Grétar áfram formaður

Aðeins var einn í framboði til formanns BLÍ, sitjandi formaður Grétar Eggertsson. Hann var samþykktur með lófaklappi á ársþingi Blaksambandsins um helgina. Inn í stjórn BLÍ komu Steinn Einarsson og Valgeir Bergmann Magnússon en þeir höfðu báðir verið í varastjórn sambandsins um nokkurt skeið. Þrjár konur voru svo kosnar inn sem varamenn í stjórn BLÍ, Ásta Sigrún Gylfadóttir, Fríða Sigurðardóttir og Hildur Mósesdóttir.

Ársþing BLÍ var það 49. í röðinni og var vel sótt fulltrúum félaganna og héraðssambanda. Fyrir þingið lágu tillögur um viðbætur í lög BLÍ vegna aga- og úrskurðarnefndar og dómstóls BLÍ. Lög BLÍ voru til umfjöllunar í laganefnd þingsins og komu þaðan breytingartillögur sem voru samþykkt og staðfest á ársþinginu. Er því komin aga- og úrskurðarnefnd inn í starfsemi Blaksambandsins ásamt áfrýjunardómstól sem er æðsta dómstig innan sambandsins og ber að fagna því.

Þingfulltrúar á ársþingi BLÍ 5. júní 2021

Nokkrar tillögur voru um orðalagsbreytingar í reglugerðum og fjallaði allsherjarnefnd um þær. Eftir nokkur fundahöld í nefndinni voru breytingarnar kynntar og bálkurinn svo borinn upp til samþykktar. Aðeins var rætt um reglugerð um bikarkeppni BLÍ þar sem það virtist á reiki hvort lið í neðri deildum ætti ávallt heimaleik 8 liða sama hvort það væri síðara liðið úr pottinum. Á endanum var það svo samþykkt að lið í neðri deild en úrvalsdeild fær heimaleik í 8 liða úrslitum bikarkeppninnar mæti það liði í úrvalsdeild. Nánari upplýsingar um aðrar breytingar verða gefnar út í júní þegar búið verður að vinna úr gögnum þingsins.

Á ársþingi BLÍ á laugardaginn var þremur einstaklingum veitt heiðursmerki BLÍ úr silfri. Arnar Már Sigurðsson, KA, Sigríður Þrúður Þórarinsdóttir, Þrótti Nes og Sigurður Jón Hreinsson, Vestra fengu öll silfurmerki fyrir óeigingjarnt starf í þágu blakíþróttarinnar á Íslandi enda hafa þau verið starfandi í sínum félögum svo árum skiptir.

Frá vinstri: Arnar Már, Sigurður Jón, Sigríður Þrúður og Grétar.

Hafsteinn Pálsson úr stjórn ÍSÍ flutti ávarp á ársþinginu. Í máli hans kom fram hvatning til blakhreyfingarinnar að standa vörð um fyrirtæki hreyfingarinnar, íslenska getspá. Honum sýndist á öllu að hreyfingin hafi staðið af sér COVID 19 en skildi það vel að erfitt hafi verið að komast í gegnum skaflinn. Vonast eftir bjartari tímum án heimsfaraldurs í framtíðinni.

Guðmundur Helgi Þorsteinsson flutti ávarp um stöðu verkefnisins BIG4 Good Governance in Volleyball Federations. Að því tilefni var tekin hópmynd með þingfulltrúum á þinginu.

BIGG4VB

Burkhard Disch kynnti einnig hans starf hjá sambandinu en hann hefur verið á landinu síðustu 4 vikur í vinnu við að heimsækja félögin og sjá starfsemi þeirra frá fyrstu hendi. Honum líst vel á framtíð íslensks blaks og bindur vonir við að skólamót BLÍ sem fer af stað í haust verði árangursríkt og mun á endanum fjölga iðkendum í blaki á öllu landinu. Alls eru 12 viðburðir skipulagðir í október um allt land og ljóst er að sambandið mun þurfa alla þá hjálp sem gefst frá sjálfboðaliðum í félögunum.

Árni Jón Eggertsson var að hætta í stjórn sambandsins eftir 7 ár sem gjaldkeri. Í þinglok var honum þakkað fyrir vel unnin störf í þágu hreyfingarinnar og honum afhentur blómvöndur. Svandís Þorsteinsdóttir var einnig að hætta í stjórn BLÍ og var þakkað sérstaklega fyrir sitt framlag en hún var því miður ekki viðstödd.

Árni Jón Eggertsson og Grétar Eggertsson Ársþing BLÍ 2021

Þingfulltrúum og starfsmönnum þingsins var þakkað fyrir starfsamt þing að lokum og öllum óskað góðrar heimferðar. Grétar Eggertsson sleit þingi og þakkaði traustið sem honum er sýnt í embætti formanns BLÍ og telur framtíðina bjarta fyrir íslensk blak og strandblak enda séu þessar greinar báðar undir hatti Blaksambands Íslands.