Ársþing CEV var haldið í dag í Vínarborg. Þingið átti að fara fram í Rússlandi en var fært til Vínar vegna Kórónuveirufaraldursins til að auka þátttöku á þinginu til muna.
Þingið var haldið þrátt fyrir mikla aukningu smita í Evrópu undanfarið en um kosningaþing var að ræða að þessu sinni og mikilvægt að halda það upp á skipulag blakstarfsins í Evrópu til framtíðar.
Blaksamband Íslands sendi ekki fulltrúa á þingið að þessu sinni vegna Kórónuveirufaraldursins og fóru vinir okkar frá Færeyjum með okkar atkvæði. Þó mætti Guðmundur Helgi Þorsteinsson á þingið enda í endurkjöri til stjórnar CEV. Guðmundur hlaut kjörgengi eftir fyrstu umferð kosninganna í morgun og mun því sitja í stjórn CEV næstu 4 ár.
Tveir voru í kjöri til forsetaembættis CEV. Aleksandar Boricic óskaði eftir endurkjöri og hinn ungi Hanno Pevkur bauð sig fram á móti honum. Boricic fékk meiri hluta atkvæða á þinginu og var því kosinn forseti CEV til næstu fjögurra ára.
Blaksamband Íslands óskar Guðmundi Helga til hamingju með kjörið í stjórn CEV og öðrum sem komust að í stjórnina.