Blaksamband Íslands hefur opnað fyrir skráningar í Hæfileikabúðir BLÍ sem haldnar verða í ágúst. Tvennar búðir verða haldnar að þessu sinni, 13.-15. ágúst að Varmá í Mosfellsbæ og síðari 27.-29. ágúst á Akureyri.
Skráning í búðirnar Mosfellsbæ fer fram á https://bli.felog.is/ en búðirnar eru fyrir 12-19 ára aldur. Skráningarfrestur er til 9. ágúst en opnað verður svo fyrir skráningu í búðirnar á Akureyri þann 11. ágúst og eru þær fyrir sama aldurshóp. Nánari dagskrá í hæfileikabúðunum kemur síðar en fyrir liggur að æft verði frá kl. 18.00 á föstudegi og að þeim ljúki um kl. 15.00 á sunnudegi.
Stefnt er að því að unglingalandsliðin í blaki fara í gang aftur í haust og búið að skrá bæði U17 ára liðin til leiks í NEVZA móti í IKAST og U19 ára liðin til leiks í NEVZA móts í Rovaniemi í Finnlandi. Þessi mót eru á dagskrá í október/nóvember. Þá er á dagskrá að U19 landsliðin verði í SCA keppni í september/byrjun október og munu þau landslið æfa á þessum helgum Hæfileikabúðanna.
Blaksambandið hvetur alla til að skrá sig í Hæfileikabúðir BLÍ en þar verða frábærir þjálfarar á vegum sambandsins að leiðbeina framtíðar leikmönnum í blaki. Til þess að eiga möguleika á að komast í æfingahóp U17 landsliðs er mikilvægt að viðkomandi leikmaður komi í hæfileikabúðir, annað hvort í Mosfellsbænum eða á Akureyri því þjálfarar liðanna reyna að setja saman hóp í búðunum.