Tvö íslensk strandblakpör hófu leik í Smáþjóðamóti SCA í morgun þegar liðin mættust í landsleik. Um er að ræða fyrstu keppni í strandblaki í Skotlandi síðan árið 2019 þar sem COVID 19 hefur gert það að verkum að ekki hefur verið hægt að halda keppni.
Elísabet Einarsdóttir og Berglind Gígja Jónsdóttir mættu þeim Thelmu Dögg Grétarsdóttur og Jónu Guðlaugu Vigfúsdóttur í leik í morgun. Þær Elísabet og Berglind höfðu betur 2-0 og eru því í góðri stöðu með sigur í riðlinum en síðar í dag (kl. 14.45 að íslenskum tíma) eiga þær Thelma og Jóna leik gegn Blair og Harris frá Skotlandi. Þetta skoska lið leikur síðan við Elísabetu og Berglindi í fyrramálið kl. 9.30 að íslenskum tíma.
Þetta mót í Skotlandi gefur alþjóðleg stig og er því mikilvægt fyrir bæði lið Íslands að ná sem lengst til að vinna sér inn stig inn í sumarið og komast á fleiri mót en bæði liðin eru skráð í nokkur World Tour mót. Berglind og Elísabet hafa spilað saman lengi og hefur gengið vel hjá þeim í upphafi sumars en liðið hefur unnið þrjú gull í mótaröðinni í Danmörku það sem af er sumri. Thelma og Jóna eru að hefja sína vegferð og komust inn á Wild Card í World Tour mót 1 stjörnu í Sofiu í Búlgaríu um næstu helgi (10.-13. júní). Verður gaman að fylgjast með liðunum í sumar.
Mótið í Skotlandi er í beinni útsendingu á Facebook síðu Scottish Volleyball en nánari upplýsingar um úrslit og leikjaniðurröðun má finna hér.
Við bendum fólki einnig á að fylgjast með liðum Íslands í strandblaki á Instagramreikningum þeirra
Mynd fengin frá Facebook síðu, tekin af EventMedia í danska túrnum.