KA Íslandsmeistarar Unbrokendeilda í bæði karla- og kvennaflokki .

Það er sannkölluð hátíðarstemning í herbúðum KA nú þegar bæði kvenna- og karlalið félagsins hafa tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í blaki. KA hefur nú unnið meistaratitil í báðum flokkum – sannkallaður tvöfaldur sigur fyrir félagið.

Kvennalið KA vann Völsung með glæsilegum 3:1 sigri í Unbroken-deildinni á þriðjudag og tryggði sér þar með titilinn fjórða árið í röð. KA-konur hafa sýnt mikla stöðugleika og yfirburði undanfarin ár og bættu nú enn einum titlinum í safnið.

Ámiðvikudagskvöld léku karlarnir við Þrótt í Reykjavík en skemmst er frá því að segja KA-menn léku af krafti og sigruðu Þrótt einnig 3:1. Með sigrinum tryggðu þeir sér Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki og innsigluðu þar með úrslitarimmu hjá báðum liðum KA.

Allir titlar ársins hafa því hafnað í KA heimilinu þetta tímabil og telst það merkilegur árangur en félaginu tókst að sigra alla titla síðast 2019.

Blaksamband Íslands óskar KA hjartanlega til hamingju með einstakan árangur og tvöfaldan meistaratitil.

Myndir: Mummi Lú