Sigur og tap í dag

Íslensku liðin hafa lokið keppni í IKAST í Danmörku. Árangurinn betri en oft áður, sérstaklega hjá drengjaliðinu

Kvennalandslið U17 spilaði við Grænland snemma í morgun og vann þann leik 3-0 þrátt fyrir að þær grænlensku hafi átt sinn besta leik í mótinu. Ísland þurfti því að vinna Noreg til að enda í fimmta sætinu.

Í leiknum gegn Noregi gekk allt upp lengi vel. Ísland tapaði reyndar fyrstu hrinunni í leiknum en vann næstu tvær nokkuð sannfærandi. Í fjórðu hrinunni virtist allt ætla að ganga upp hjá Íslandi en í lokin náði norska liðið góðri siglingu og jafnaði leikinn 2-2 í hrinum. Oddahrinan byrjaði spennandi en við skipti valla var staðan 8-3 Íslandi í vil. Okkar stúlkur kláruðu leikinn með stæl með sigri í oddahrinunni 15-8 og þar með leikinn 3-2 og fimmta sætið í höfn.

Karlalandslið U17 endaði í 3. sæti riðilsins og spilaði við Dani (4. sætið) um bronsið í morgun. Danir unnu leikinn nokkuð sannfærandi 3-0 og endaði Ísland því í 4. sæti en það er besti árangur liðsins í nokkuð mörg ár.

Íslensku liðin mega vel við una eftir þetta mót og greinilegt að blak ungmenna er á uppleið. Liðin koma heim seinni partinn á morgun.