Í vikunni tók Ísland þátt í NEVZA mótinu sem ávalt er haldið í Ikast í Danmörku í þessari viku á ári hverju. NEVZA stendur fyrir North European Volleyball Zone Association og eru það Norðurlandaþjóðirnar ásamt Englandi sem taka þátt. Finnar hafa yfirleitt verið sterkust þjóða Norðurlandanna í blaki og einnig eru Svíar sem bjóða upp á blak-menntaskóla mjög góðir. Margir Íslendingar hafa haldið til Danmerkur og spilað blak þar sem og til Svíþjóðar og Noregur er með mjög góð blaklið.
Frá því að afreksstjóri var ráðinn í fullt starf hjá Blaksambandi Íslands hefur öflugt afreksstarf fyrir alla hópa verið í gangi og kristallast það í gengi liðanna okkar. Landsliðshóparnir okkar fóru fyrr af stað og var æfingum haldið út oftar en áður og út um allt land. Einnig var sú stefna sett að stuðla að því að fá inn fleiri íslenska þjálfara í landsliðsteymi liðanna.
Þjálfarar stúlknaliðsins eru Thelma Dögg Grétarsdóttir og Atli Fannar Pétursson og þjálfarar drengjaliðsins eru Borja Gonzalez Vicente og Andri Hnikarr Jónsson.
U17 stúlkurnar byrjuðu mótið á því að mæta Noregi og tapa fyrir þeim 3-0. Næst mættu þær Danmörk hvítum en Danir voru með 2 lið á mótinu. Þann leik unnu stúlkurnar í odd 3-2. Á degi tvö var spilað við Færeyja og var það einnig hörkuleikur sem vannst líka 3-2 og þýddi það að stúlkurnar voru komnar í undanúrslitin og mættu þær Noregi aftur. Í þetta sinn voru þær nálægt því að vinna þær en þær töpuðu í enn einum oddaleiknum og því ljóst að þær myndu spila um bronsverðlaun á mótinu og mæta Svíþjóð. Þann leik unnu þær og enn ein oddahrinan á mótinu staðreynd. Þær unnu oddahrinuna mjög sannfærandi 15-8 og því bronsið í höfn. Það var glæsileg barátta og karakter í liðinu og að vinna Svíþjóð má teljast frábær árangur. Stúlkurnar fengu mikla reynslu út úr mótinu þar sem flestir leikirnir þeirra fóru í 5 hrinur.
U17 drengirnir byrjuðu mótið á því að spila við Danmörku hvíta sem voru með 2 lið eins og stúlknamegin. Strákarnir unnu þann leik 3-2. Næsti leikur var við Finnland og tapaðist sá leikur 3-1. Á öðrum degi spiluðu strákarnir við England og unnu þann leik 3-0 og því ljóst að þeir voru komnir í undanúrslit. Þar mættu þeir Svíþjóð og gerðu þeir sér lítið fyrir og unnu í fimm hrinu leik þar sem oddahrinan fór 15-13. Þetta er ótrúlegur árangur hjá strákunum og aldrei hefur drengjalið frá Íslandi náð svona langt og eins og hjá stúlknaliðinu er það að vinna Svíþjóð mjög stór áfangi í blaksögunni.
Þetta þýddi það að strákarnir myndu mæta Finnlandi aftur og nú úrslitaleik um gullið. Sá leikur var mjög flottur hjá strákunum og voru þeir ekki langt frá þeim í getu, en hann tapaðist 3-1 eins og fyrri leikurinn og því silfrið þeirra. Aldrei hefur drengjalið náð svo góðum árangri og er það ljóst að við eigum gríðarlega góðan efnivið í unga fólkinu okkar.
Ísland átti einn leikmann í draumaliði mótsins en Ágúst Leó Sigurfinnsson var valinn sem díó mótsins.