Tilkynning v/COVID19

Á stjórnarfundi BLÍ nú undir kvöld þriðjudaginn 6. október 2020 var tekin sú ákvörðun að fresta öllu mótahaldi og viðburðum á vegum BLÍ sem hér segir vegna nýjustu tíðinda af Covid 19 og til samræmis við auglýsingu heilbrigðisráðherra.

Ákvörðunin tekur til

  • Allra leikja í Mizunodeild karla og kvenna frá 7. október þar til annað verður tilkynnt
  • Allra leikja í 1. deild kvenna frá 7. október  þar til annað verður tilkynnt.
  • Allra leikja í Kjörísbikar karla og kvenna þar til annað verður tilkynnt.
  • Yngriflokkamóti sem átti að vera í Mosfellsbæ 23.-25. október.
  • Afreksbúða á tveimur helgum, 16.-18. október og 23.-25. október.
  • Neðri deildamóti helgina 30. október til 1. nóvember.

Frestun þessi tekur gildi frá 7. október og er í gildi þar til auglýsing heilbrigðisráðherra fellur úr gildi nema aðrar tímasetningar séu tilteknar.  Gera má ráð fyrir frestun leikja í Mizunodeild og 1. deild til a.m.k. tveggja vikna.

Samkvæmt auglýsingu heilbrigðisráðherra þá eru íþróttir og líkamsrækt innandyra óheimil á höfuðborgarsvæðinu nema fyrir börn fædd árið 2005 og síðar, með höfuðborgarsvæðinu er átt við Reykjavík, Seltjarnarnesbæ, Mosfellsbæ, Kjósarhrepp, Hafnarfjarðarkaupstað, Garðabæ og Kópavog.

Samkomureglur sem kynntar voru í gær gilda óbreyttar á  öðrum landssvæðum.

Nánari upplýsingar koma síðar en mótanefnd mun fara strax í að skoða dagsetningar fyrir þá leiki sem þarf að færa.

Blaksamband Íslands veit að aðildarfélögin munu fara í einu og öllu eftir þeim skilyrðum sem fram eru komnar og það er okkar sameiginlega ábyrgð að sjá til þess að sóttvarnarreglum sé framfylgt, með því tökum við ábyrgð á okkur sjálfum og hvort öðru.