Verkefni landsliðanna 2022

Íslensku blaklandsliðin verða í nokkrum verkefnum á árinu 2022. Ber þar hæst að nefna A landsliðin sem taka þátt í EuroVolley í ágúst og september, riðlakeppni sem leikin er heima og að heiman. Í fyrsta skipti sendum við U21 kvenna og U22 karla í Evrópukeppni frá 19.-22. maí 2022.

Unglingalandsliðin voru á fullu fyrir áramót þegar 6 lið tóku þátt í mótum, EM U17 og EM U18 í desember og svo NEVZA U17 og NEVZA U19 í október. A landsliðin áttu að fara í boðsmót til Luxemborgar á milli jóla og nýárs en mótinu var aflýst vegna COVID.

A landsliðin, U21 kvenna og U22 karla munu byrja undirbúning sinn í febrúar fyrir keppni í vor og sumar. Afreksnefnd BLÍ og afreksstjórinn, Burkhard Disch hafa ákveðið að hafa æfingar fyrir þessa hópa á Húsavík og Laugum í Reykjadal helgina 11.-13. febrúar. Blaksambandið fylgist vel með gangi mála í COVID faraldrinum og verður þetta því endanlega staðfest í lok janúar hvort af þessum æfingum verði eða ekki.

Leikmenn U21 kvenna eru leikmenn fæddir 2002 og síðar og U22 karla leikmenn fæddir 2001 og síðar. Að auki verða leikmenn A landsliða boðaðir á æfingar þessa helgi. Listi leikmanna sem boðaðir eru á þessar æfingar verður birtur strax í næstu viku.

U21 kvenna fer til Svartfjallalands 19.-22. maí 2022 og leikur þar í riðli með Svartfjallalandi, Tyrklandi og Póllandi.
U22 karla fer til Úkraínu 19.-22. maí 2022 og leikur þar í riðli með Úkraínu, Danmörku og Tyrklandi.

Ekki er enn búið að draga í riðla fyrir EuroVolley 2023 og verður spennandi að sjá hvaða þjóðum Ísland mætir en karlariðillinn er spilaður frá 3.-20. ágúst og kvennariðillinn frá 19. ágúst til 10. september.