Blaksamband Ísland ákvað að fresta öllu mótahaldi áfram inn í nóvember. Það er óljóst um hvenær keppni hefst að nýju og seint í gærkvöld var ljóst að félögin á höfuðborgarsvæðinu gætu ekki æft saman innandyra.
Ný reglugerð ráðherra tók gildi á miðnætti þar sem áfram er 20 manna samkomubann á öllu landinu til 10. nóvember. Íþróttir með snertingu eru heimilar á æfingum og keppnum á vegum ÍSÍ þrátt fyrir 2ja metra regluna og að hámarki 50 manns saman og engir áhorfendur. Bráðabirgðaákvæði um höfuðborgarsvæðið gildir til 3. nóvember þar sem íþróttir með snertingu eru óheimilar.
Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins og sveitarfélögin ákváðu á fundi sínum seint í gærkvöld að íþróttahús og íþróttamiðstöðvar á svæðinu verði lokað frá og með deginum í dag. Ákvörðunin verður endurskoðuð að viku liðinni eins og fram kemur í fréttatilkynningu þess efnis. Félögin fá því ekki að æfa innandyra með ströngum skilyrðum eins og vonast var til í gær.
Við, eins og aðrir, þurfum að flýta okkur hægt í sambandi við þennan vágest sem hrjáir okkur en áður en langt um líður sjáumst við aftur á blakvellinum.