Landsliðin kepptu aðra leiki sína í dag á Smáþjóðaleikunum. Bæði liðin mættu San Marínó, konurnar klukkan 11 og karlarnir klukkan 14.
Íslenska kvennaliðið var lengi í gang og San Marínó náði ágætis forskoti snemma í hrinunni. Eftir leikhlé hjá Íslandi hrökk liðið í gang og vann hrinuna 26:24. Önnur hrina var jöfn til að byrjað með en um miðja hrinu gáfu okkar stelpur í og unnu hrinuna 25:16. Íslenska liðið sýndi gríðarlega yfirburði í þriðju hrinu og kláraði hana örugglega 25:11 og þar með leikinn 3:0. Næsti leikur hjá kvennaliðinu er á morgun kukkan 11 á móti Lúxemborg.
Fyrri tveir kvennaleikirnir í dag voru 3:2 sigur Svartfellinga á Kýpur og 3:1 sigur Lúxemborg á Liechtenstein.
Karlarnir spiluðu einnig gegn San Marínó í dag. Strákarnir litu vel út í fyrstu hrinu og tóku hana 25:21. Önnur hrina byrjaði mjög jafnt en fljótlega náði San Marínó tökum á hrinunni og vann hana 25:19. Þriðja og fjórða hrina þróuðust svipað. San Marínó náði ágætis forskoti strax í upphafi hrinanna sem íslenska liðið náði ekki að éta upp, þrátt fyrir góða kafla inn á milli. Hrinurnar fóru 25:21 og 25:20 og leikurinn þar með 3:1. Næsti leikur hjá körlunum er kl. 14 á morgun við Lúxemborg.
Seinni tveir karlaleikir dagsins voru 3:0 sigur Kýpur á Mónakó og 3:0 sigur Svartfjallalands á Lúxemborg.