Annar keppnisdagur á NEVZA U19

Keppnisdegi tvö er lokið í Finnlandi og léku strákarni tvo leiki á meðan stelpurnar léku einn.

Strákarnir hófu daginn á því að leika við Englendinga í lokaleik sínum í riðlakeppninni. Leikurinn tapaðist 3-0 (25-12, 25-21, 25-21) og enduðu strákarnir því í neðsta sæti í sínum riðli. Markús Ingi Matthíasson var stigahæstur íslensku strákanna með 7 stig.
Umspil um 5.-7. sæti í mótinu hófst einnig í dag og léku strákarnir við Færeyinga. Strákarnir unnu þar góðan 3-1 sigur (25-23, 17-25, 25-21, 25-19).
Galdur Máni Davíðsson var stigahæstur með 16 stig og Þórarinn Örn Jónsson með 15 stig.

Líkt og strákarnir þá leika stelpurnar í umspili við Færeyinga og Englendinga um 5.-7. sæti. Í dag tóku þær á móti Færeyingum og töpuðu 3-1 (17-25, 25-22, 25-20, 25-17). Stigahæst var Eldey Hrafnsdóttir með 17 stig.

Á morgun fer lokadagur mótsins fram en bæði lið leika þá við Englendinga í umspilinu um 5.-7. sæti. Strákarnir eiga leik kl.07:00 á íslenskum tíma og stelpurnar spila í framhaldinu kl.09:00.