Breytingar framundan hjá karlalandsliðinu

Nú er orðið ljóst að þjálfarar karlalandsliðsins munu ekki halda áfram.

Christophe Achten og Massimo Pistoia hafa ákveðið að halda ekki áfram með þjálfun karlalandsliðsins en þetta varð ljóst í vikunni. Framundan er því leit að nýju þjálfarateymi fyrir liðið.

Karlalandsliðinu var boðið á NOVOTEL Cup í byrjun janúar og hefur BLÍ þekkst boðið og mun liðið því fara til Luxemborgar með kvennalandsliðinu. „Því miður sáu þeir Christophe og Massimo sér ekki fært um að halda áfram með liðið. Við vildum gjarnan halda sama þjálfarateymi áfram enda hafa þeir unnið mjög gott starf. Báðir þjálfararnir eru hinsvegar nýbyrjaðir í nýju starfi hjá nýjum félögum og vilja einbeita sér að því næstu misserin. Við höfum fullan skilning á því en hver veit nema þeir félagar snúi aftur einn daginn,“ segir Stefán Jóhannesson, formaður landsliðsnefndar BLÍ.

Framundan er því leit að nýju þjálfarateymi fyrir karlalandsliðið í blaki en liðið lék síðast undir stjórn Filip Szewczyk og Mateo Castrillo í Færeyjum sem fengnir voru sérstaklega í það verkefni.