Breytt starfshlutfall á skrifstofu BLÍ og breyttur opnunartími

Frá því að samkomubann var sett á þann 16. mars þá hafa verkefni á skrifstofu BLÍ tekið breytingum og þá ekki síst eftir að deildakeppni var hætt þann 20. mars. Þá er einnig öruggt að breytingarnar verða enn meiri eftir ákvörðun stjórnar að leiktíðinni 2019-2020 væri lokið. Ljóst er að íþróttalegt og fjárhagslegt tjón Blaksambandsins verður töluvert en öllum stórum viðburðum hefur verið aflýst, þ.m.t. Kjörísbikarnum sem hefur verið stærsta helgi leiktímabilsins. Úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla og kvenna mun einnig ekki fara fram en sú keppni hefur verið að vaxa umtalsvert undanfarin ár þar sem stærstu blakleikirnir eru spilaðir á heimavelli félaganna. Félögin hafa stöðugt verið að bæta umgjörðina í úrslitakeppninni, sem hafa skilað sér í auknum tekjum og fleiri áhorfendum sem mæta. Tekjumissir félaganna og Blaksambandsins er því verulegur í kjölfar aflýsingar keppna.

Í ljósi ofangreindra aðstæðna hefur stjórn Blaksambandsins ákveðið að minnka starfshlutfall starfsmanna sinna og hefur það þegar tekið gildi og mun gilda til loka maí. Ákvörðunin þessi var tekin á rekstrarlegum forsendum með það að leiðarljósi að mæta rekstrarkostnaði sambandsins. Opnunartími skrifstofu sambandsins verður frá 10:00-14:00 mánudaga-fimmtudaga og lokað verður á föstudögum. Aðeins verður annar starfsmanna sambandsins á skrifstofunni á opnunartíma. Við viljum einnig beina því til hreyfingarinnar að vera sem mest í sambandi í gegnum tölvupóst, fjarfundarbúnað eða síma þar sem við viljum takmarka heimsóknir á skrifstofuna. Stjórn og starfsmönnum Blaksambandsins er þó einnig ljóst að forsendur geta breyst og verður áfram fylgst með þróun mála og ákvarðanir endurskoðaðar reglulega.

Það er von okkar að blakhreyfingin sýni þessum aðstæðum skilning og skulum við muna það að þessu ástandi mun ljúka og það verður aftur leikið blak á Íslandi. Þangað til, farið varlega og gerið heimaæfingar.