Brons hjá báðum

Bæði A landslið Íslands unnu til bronsverðlauna á NOVOTEL CUP 2020. Ungt kvennalið var sent til keppni þar sem fjölmargir leikmenn voru að stíga sín fyrstu skref í A landsliði en karlaliðið var örlítið reyndara, þó með nokkra sem spiluðu sinn fyrsta A landsleik.

Keppni hófst föstudaginn 3. janúar þegar karlalandsliðið spilaði við England. Leikurinn var spennandi en 3-1 tap staðreynd. Á laugardag mætti liðið Skotlandi og var hér um að ræða frábæran leik Íslands. Eftir góða byrjun í leiknum með sigurhrinu 25-17 náðu skotar að jafna leikinn með sigri 24-26. Æsispennandi lokakafli kom í hrinu þrjú þar sem Ísland hafði betur 25-23. Fjórða hrinan fór í upphækkun þar sem besti leikmaður Íslands í leiknum, Ævarr Freyr Birgisson skoraði lokastigið 34-32 og leikurinn unninn 3-1.

A landslið karla janúar 2020

Íslenska karlalandsliðið spilaði svo við Luxemborg sunnudaginn 5. janúar sem endaði 3-0 fyrir heimamenn. Fór svo að Ísland hafnaði í 3. sæti mótsins sem eru ágæt úrslit. Í liðinu voru reynsluboltar á borð við Hafstein Valdimarsson, Ævarr Freyr og Lúðvík Má Matthíasson. Formaður BLÍ afhenti nýliðum bronsmerki eftir fyrsta A landsleikinn en nýliðar voru Ragnar Már Garðarsson, Kári Hlynsson, Bjarki Sveinsson og Kristófer Björn Ólason Proppé.

Frá vinstri er Formaður BLÍ, Grétar Eggertsson, Kári Hlynsson, Ragnar Már Garðsson, Bjarki Sveinsson, Kristófer Björn Ólason Proppé og formaður landsliðsnefndar Stefán Jóhannesson

Kvennalandslið Íslands byrjaði mótið á leik gegn Skotlandi. Fyrirliði liðsins, Thelma Dögg Grétarsdóttir spilaði sinn 50 landsleik í þessum leik og fékk afhent silfurmerki BLÍ að honum loknum. Ísland vann leikinn 3-1.

Frá vinstri, Stefán Jóhannesson formaður landsliðsnefndar, Thelma Dögg Grétarsdóttir með silfurmerki BLÍ og formaður BLÍ Grétar Eggertsson

Leikur Íslands og Englands á laugardeginum var erfiður íslenska liðinu sem náði sér aldrei almennilega á strik. England vann leikinn 3-0 en það jákvæða við leik Íslands var að ungir og efnilegir leikmenn fengu sinn séns inná vellinum.

Í lokaleiknum vann Luxemborg 3-1. Matthildur Einarsdóttir tók ekki þátt í leiknum vegna meiðsla og var hin unga og efnilega Jóna Margrét Arnarsdóttir uppspilari í byrjunarliði og stóð sig vel.

Nýliðar kvennalandsliðsins fengu bronsmerki afhent eftir fyrsta A landsleikinn en þær Jóna Margrét Arnarsdóttir, Sóldís Björt Leifsdóttir Blöndal, Valdís Unnur Einarsdóttir, Daníela Grétarsdóttir og Kristín Fríða Sigurborgardóttir fengu merkið afhent ásamt henni Heiðu Elísabetu Gunnarsdóttir sem átti eftir að fá sitt merki. Stefán Jóhannesson og Grétar Eggertsson sáu um að afhenda merkin.

Frá vinstri Grétar Eggertsson formaður BLÍ, Kristín Fríða Sigurborgardóttir, Daníela Grétarsdóttir, Heiða Elísabet Gunnarsdóttir, Valdís Unnur Einarsdóttir, Sóldís Björt Leifsdóttir Blöndal, Jóna Margrét Arnarsdóttir og Stefán Jóhannesson formaður landsliðsnefndar.