Blaksamband Íslands hefur ráðið Burkhard Disch sem nýjan afreksstjóra sambandsins og verður hann einnig landsliðsþjálfari karla.
Burkhard er fæddur árið 1970 og er hann með mastersgráðu í Íþróttafræði með áherslu á afreksstarf frá Saarland Háskólanum í Saarbrücken í Þýskalandi.
Burkhard var landsliðsþjálfari karlaliðs Lúxemborgar frá 2003-2014 og var afreksstjóri hjá blaksambandi Lúxemborgar frá 2006-2018. Helstu verkefni hans þar voru að innleiða nýja stefnu blaksambandsins og halda utan um faglegt starf allra landsliða. Jafnframt sá hann um skipulagningu afreksbúða og annarra viðburða ásamt því að vera í samskiptum við evrópska blaksambandið CEV og alþjóða blaksambandið FIVB. Í dag er hann yfirþjálfari TV Bliesen í 2. deildinni í Þýskalandi en með því liði mun landsliðsmaðurinn Máni Matthíasson leika með næsta keppnistímabil
Helstu hlutverk nýs afreksstjóra verður að þróa og innleiða framtíðarsýn blaks á Íslandi í samvinnu við stjórn. Hann mun leiða þjálfaramenntun, ásamt landsliðsþjálfurum kvenna, halda utan um faglegt starf landsliða, ásamt því að sinna útbreiðslustarfi. Samstarf við þjálfara félagsliða og félögin sjálf er eitt af mikilvægum verkefnunum þegar kemur að þróun ungra og efnilegra leikmanna. Afreksstjóri mun koma að skipulagningu og utanumhaldi Afreks- og hæfileikabúða blaksambandsins í samstarfi við starfsmenn og þjálfara.
Blaksambandið og blakhreyfingin býður Burkhard velkomin til starfa og væntir mikils af ráðningu hans í starf Afreksstjóra Blaksambands Íslands.