Félagaskiptagluggi framlengdur og uppfærðar sóttvarnarreglur

Stjórn Blaksambands Íslands samþykkti á fundi sínum í gær viðauka við COVID reglugerð sambandsins. Í viðaukanum er félagaskiptaglugginn framlengdur til 28. febrúar og því bætt við að ekki verður hægt að sækja um leikheimild eftir þann tíma. Þá hefur leiktímabilið verið formlega framlengt og hefur mótanefnd nú tíma til 30. júní til að klára leiktímabilið.

Sóttvarnarreglur BLÍ hafa verið uppfærðar miðað við nýja reglugerð ráðherra um samkomutakmarkanir en megin atriðin eru þau að nú sé heimilt að keppa að nýju og spila æfingaleiki. Undanþágan frá samkomutakmörkunum er þó þannig að keppni er leyfð án áhorfenda og gildir reglugerðin til 17. febrúar.

Mótanefnd BLÍ hefur unnið út frá því að hægt sé að hefja keppni að nýju og mun endurræsing Íslandsmótsins verða auðveldari fyrir vikið. Fyrstu leikir eru á dagskrá um komandi helgi í 1. deild kvenna á föstudagskvöld þegar KA B og Völsungur mætast fyrir norðan og svo verða fjölmargir leikir á dagskrá í Mizunodeildunum á laugardag og sunnudag en beint streymi er frá þeim leikjum.

Leikið verður þétt nú á þessari vorönn en Kjörísbikarinn er á dagskrá með breyttu sniði þar sem aðeins lið úr tveimur efstu deildunum taka þátt og því sem næst farið beint í 8 liða úrslit. Leikið er til úrslita í Kjörísbikarnum í Digranesi helgina 12.-14. mars