Gekk vel í sumar!

Þjálfaranámskeiðin í sumar tókust vel undir stjórn nýs Afreksstjóra BLÍ, Burkhard Disch. BLÍ I var haldið seinni hlutann í júní og var Burkhard þá í fjarkennslu frá Þýskalandi en þau Valal og Borja voru hér á landi með kennsluna. Námskeiðið var haldið í Fagralundi og tókst vel.

Grétar Eggertsson, formaður BLÍ ásamt Burkhard Disch afreksstjóra BLÍ

BLÍ II var síðan haldið yfir tvær helgar í byrjun júlí og var Burkhard hér á landi við kennslu með Valal og Borja en farið var yfir mikið efni bæði fræðilegt og í æfingum í íþróttasalnum að Varmá í Mosfellsbæ. Michel Beutier aðstoðaði einnig við kennslu í íþróttasalnum.

Remko Kenter var með fjarkynningu í tengslum við síðari helgina í BLÍ II. Kynningin var um Action Volley en sú hugmyndafræði snýst um blak fyrir krakkana, hvernig sé best að laða krakka að íþróttinni með skemmtilegum og krefjandi leikjum á blakvellinum.  

Michel að leiðbeina þjálfurum

Alls tóku 11 þjálfarar þátt í BLÍ II og bíða þau öll eftir Hæfileikabúðum BLÍ helgina 14.-16. ágúst þar sem þau munu verða metin sem þjálfarar með lokaprófi.

Krefst nákvæmni og samvinnu

“Þjálfaranámskeiðin tókust vel hjá okkur með mismunandi kennurum og fræðslu en það var einmitt ein ástæða þess að þátttakendum fannst skemmtilegt og spennandi að taka námið”, segir Burkhard Disch, afreksstjóri BLÍ. “Okkur hlakkar til að halda áfram inn í nýja framtíð í blakinu hér á Íslandi”, bætti hann við.

Blaksamband Íslands þakkar öllum sem komu að skipulagningu námskeiðanna og kennslu fyrir þeirra framlag og sérstaklega þeim krökkum sem komu og aðstoðuðu í æfingum.

Fjölmargir komu að þjálfaranámskeiðunum

BLÍ I og BLÍ II verða aftur á komandi leiktímabili og dagsetningar auglýstar síðar.