Grétar Eggersson nýr formaður BLÍ

Grétar Eggertsson nýr formaður BLÍ.

Þingfulltrúar 47. ársþings BLÍ klöppuðu vel og innilega þegar Grétar Eggertsson í Íþróttamiðstöðinni í kvöld. Grétar tekur við af Jasoni Ívarssyni eftir 14 ár í formannssætinu. 

Grétar Eggertsson var einn í framboði í embætti formanns BLÍ á ársþinginu sem haldið var í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í kvöld. Hann var því sjálfkörinn formaður BLÍ til tveggja ára með lófataki þingfulltrúa.

Um leið og Grétar tók við formannsembættinu var Jasoni þakkað fyrir óeigingjarnt starf í þágu hreyfingarinnar en Stefán Jóhannesson, varaformaður stjórnar BLÍ veitti Jasoni gullmerki Blaksambands Íslands.

Í upphafi þings komu Garðar Svansson og Hafsteinn Pálsson úr stjórn ÍSÍ og skiluðu kveðju frá framkvæmdastjórn ÍSÍ en embættisverk Hafsteins var að sæma fráfarandi formann BLÍ, Jason Ívarsson með gullmerki ÍSÍ.

Ársþing BLÍ var vel mætt í dag og starfsamt þing með eindæmum. Þingfulltrúar voru málefnalegir og greinilega ekki sama um blakhreyfinguna sem er í sjálfu sér ein stór fjölskylda, saman sem eitt lið. „Við erum eitt lið“, sagði Jason Ívarsson í setningarræðu sinni um leið og hann þakkaði fyrir samstarfið við fólkið í hreyfingunni. 

Grétar Eggertsson tók við sem formaður BLÍ í lok þingsins og ber að merkja í þakkarræðunni hans kraft til að gera betur með félögunum í landinu, hvort sem það sé í grasrótinni eða ímyndarmálum blakíþróttarinnar í landinu. Hans fyrsta embættisverk var að sæma fráfarandi formann, Jason Ívarsson sem Heiðursformann Blaksambands Íslands.

Árni Jón Eggertsson var endurkjörinn í stjórn sambandsins og Svandís Þorsteinsdóttir, sem hefur verið í varastjórn var einnig kjörin í stjórn. Steinn G Einarsson, Sigurbjörn Árni Arngrímsson og Ragnheiður Sigurðardóttir voru kosin í varastjórn. Fyrir í stjórn BLÍ voru þau Stefán Jóhannesson og Kristín Hálfdánardóttir.