Íslenska strandblakparið, þær Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttur, hafa átt frábært upphaf á þessu tímabili. Fimm gull komin í hús hjá þeim og er parið á leið í aðalkeppni (Maindraw) í World Tour 1* í Belgíu um miðjan júlí.
Berglind og Elísabet hafa æft strandblak í allan vetur í danmörku í undirbúningi sínum fyrir sumarið. Það hefur heldur betur skilað sér því þær hafa nú unnið 4 gull í dönsku mótaröðinni það sem af er og að auki unnu þær Smáþjóðamót í Skotlandi í júní. Um síðustu helgi unnu þær Middelfart City Grand Slam sem er hluti af dönsku mótaröðinni.
Líkt og Thelma og Jóna Guðlaug eru þær Berglind og Elísabet skráðar í nokkur World Tour mót í sumar og hefur liðið nú verið staðfest í aðalkeppni World Tour móts í Leuven í Belgíu frá 15.-18. júlí. Í þessum mótum er farið eftir stigafjölda leikmanna og þátttaka í mótum því gríðarlega mikilvæg. Berglind og Elísabet eru samtals með 440 stig um þessar mundir og komust inn í mótið í Belgíu í 6. sæti yfir stigafjölda en 12 lið komast inn í aðalkeppnina. Að auki eru 16 lið í undankeppni í þessu móti sem spila 1 leik til að komast inn í aðalkeppnina.
Blaksambandið hvetur alla til að fylgjast með íslensku strandblakpörunum í sumar í sinni vegferð og eru hlekkir hér fyrir neðan á Facebooksíður og Instagramsíður liðanna.
Facebook síðan Einarsdóttir/Jónsdóttir
Instagram Icebeachvolley
Facebook síðan Vigfúsdóttir/Grétarsdóttir
Instagram dottir.beach