Hamar deildarmeistari

Hamar Mizunodeildarmeistarar 2021

Keppni í Mizunodeild karla lýkur á miðvikudag þegar þrír leikir verða spilaðir í lokaumferðinni. Í gær spilaði Hamar þó sinn síðasta leik í deildinni gegn Álftanesi í Forsetahöllinni og fór með 3-1 sigur í leiknum og gulltryggði sér deildarmeistaratitilinn í Mizunodeild karla í blaki.

Hamar fékk deildarbikarinn afhentan í leikslok en Grétar Eggertsson formaður BLÍ og Steinn Einarsson stjórnarmaður Blaksambandsins sáu um verðlaunaafhendingu. Hamar endaði með fullt hús stiga, tapaði einungis 2 hrinum í þeim 12 leikjum sem liðið spilaði og er með 3 stig að meðaltali í leik en þannig er útreikningur miðað við Covid reglugerð sambandsins þegar keppni er hætt eftir að búið er að spila 2/3 hluta af heildarleikjafjölda.

Endanleg röð liða í Mizunodeild karla verður ljós á miðvikudagskvöld þegar lokaleikirnir hafa verið spilaðir en stigafjölda er deilt með fjölda leikja til að finna út meðalstigaskor. Úrslitakeppnin verður stærri þetta árið þar sem öll liðin taka þátt en hún hefst á sunnudag þegar tvö neðstu liðin spila upp á sæti í 8 liða úrslitum en þau lið munu spila 2 leiki en fari svo að bæði lið vinna leik er leikin gullhrina eftir seinni leikinn til að úrskurða um sigurvegara í rimmunni. Átta liða úrslitin hefjast svo 9. maí en gullhrinufyrirkomulag er spilað fram að úrslitunum sjálfum sem eru á dagskrá frá 23. maí en þar þarf að vinna tvo leiki til að hampa Íslandsmeistaratitlinum.

Blaksamband Íslands óskar Hamri til hamingju með deildarmeistaratitilinn 2021.