Heilbrigðisráðuneytið samþykkti undanþágubeiðni BLÍ

Eftir nýjustu reglugerð heilbrigðisráðherra sem tók gildi í dag og æfingar efstu deildanna í blaki heimilar með takmörkunum þó, var ákveðið að BLÍ sendi inn undanþágubeiðni skv. 8 greininni í reglugerðinni um æfingar í 1. deild kvenna.

Heilbrigðisráðuneytið fór yfir umsókn BLÍ í dag og hefur samþykkt að heimila liðum í 1. deild kvenna að stunda æfingar með þeim takmörkunum sem sóttvarnarreglur BLÍ segja til um. Ítrekar Blaksambandið við félögin mikilvægi þess gæta að sóttvörnum í hvívetna og fara að þeim reglum sem settar hafa verið.

„Þetta er gríðarlegt fagnaðarefni fyrir blakhreyfinguna enda er næst efsta deildin í blaki kvenna með 8 liðum og frábært uppbyggingarstarf í gangi hjá mörgum félögum með lið í þessari deild. Sum félaganna eru með b liðin sín í deildinni og því leikmenn sem æfa að jafnaði með úrvalsdeildarliði félagsins en svo eru önnur eins og t.d. Völsungur og BF sem eru með unga og efnilega afreksmenn og fjölmargir sem þegar eiga nokkra landsleiki í unglingalandsliðum,“ segir Sævar Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BLÍ.

Undanþága heilbrigðisráðuneytisins gildir svo fremi að ekki verði settar strangari reglur en nú gilda skv. reglugerðinni.