Úrslit Ofurbikarsins 2020 fóru fram á sunnudag. HK mætti liði Aftureldingar í kvennaflokki og var sterkari aðilinn í leiknum í 3-1 sigri í KA heimilinu á Akureyri. HK varð því fyrsta liðið til að vinna þennan titil sem markar upphaf leiktímabilsins í blakinu.
Fyrir verðlaunaafhendingu ávarpaði Sævar Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BLÍ keppendur og gesti og hvatti félögin og liðin til að huga að eigin sóttvörnum. Í ofurbikarnum þessa helgi voru þessir hlutir skoðaðir hjá félögunum og reyndi talsvert á hvort farið væri eftir sóttvarnarreglum BLÍ. Bæði karlalið og kvennalið HK fengu hvatningaverðlaun frá Blaksambandinu þar sem þótti sýnt bæði innan vallar sem utan að liðið hugsaði vel um sóttvarnir. Öll lið sinntu að sjálfsögðu sóttvörnum í mótinu en misvel þó. Verðlaunin voru ekki síður veitt til að vekja athygli á að Blaksambandið fylgist með hvað félögin eru að gera í þessum málum og eru til hvatningar fyrir öll lið í Íslandsmótinu að sinna sóttvörnum á æfingum og í framkvæmd leikja.
Hvaða lið verður svo fyrst með „snertilausa fagnið“ á þessu leiktímabili?
Að kvennaleik loknum tók við leikur KA og Aftureldingar í karlaflokki. Sá leikur endaði í 5 hrinu leik eftir að KA komst í 2-0 og Afturelding jafnaði 2-2. Í oddahrinunni hafði KA betur 15-12 og hampaði Ofurbikarnum í lokin.
Ofurbikarinn á Akureyri um helgina var fyrsti blakviðburðurinn innanhúss síðustu 6 mánuði en öllum viðburðum var aflýst eftir að samkomubann var sett á þann 16. mars. Þessi upphitunarviðburður tókst með ágætum fyrir norðan þar sem um marga góða leiki var að ræða hjá bestu liðum landsins. Mörg ný andlit komin í liðin og ljóst að um spennandi leiktímabil er að vænta en Mizunodeildin fer af stað um næstu helgi.
Það var ekki auðvelt að halda stórt mót með stífum sóttvarnarreglum og eflaust má gera betur en sjá mátti á mótinu. Þátttakendur í mótinu eiga hrós skilið fyrir jákvæðnina við að hjálpa til við sóttvarnir og huga að sjálfum sér í leiðinni. Verður þetta undirbúningsmót vonandi til þess að félögin hugi enn betur að sóttvörnum við æfingar og í framkvæmd leikja á komandi vikum þegar allt er komið af stað.
Blaksamband Íslands óskar HK og KA til hamingju með fyrsta titil tímabilsins 2020-2021.