Íslenska drengjaliðið mætti færeyska liðinu í morgun og áttu nokkuð góðan leik eftir erfiða þrjá leiki í mótinu. Lið Færeyja vann fyrstu hrinuna 25-18 og aðra hrinuna 25-22 eftir góða spretti hjá okkar drengjum. Í þriðju hrinunni tókst Íslandi ekki að halda í við færeyingana sem unnu hana 25-17 og þar með leikinn 3-0. Fjórða sætið því niðurstaðan hjá U17 ára liði drengja.
Ísland komst í úrslitaleikinn eftir að hafa unnið Færeyjar og mánudag og Noreg í gær í frábærum leik. Liðið mætti einbeitt til leiks gegn Danmörku í úrslitaleik en Ísland tapaði fyrir þeim á mánudag. Allt annað var að sjá til liðsins í dag og var frábært að sjá allt ganga upp eftir góða vinnu undanfarna daga í mótinu. Ísland vann nokkuð öruggan 3-0 sigur á því danska, 25-20, 25-14 og 25-19. Þar með er fyrsta gullið komið í NEVZA mótum U17 og U19 í sögu Blaksambands Íslands.
Í verðlaunaafhendingu í dag var draumalið mótsins tilkynnt og átti Ísland fjóra leikmenn í stúlknaliðinu. Lelja Sara Hadziredzepovic díó, Heba Sól Stefánsdóttir miðja, Sóldís Björt Leifsdóttir kantur og Agnes Björk Ágústsdóttir frelsingi. Sóldís Björt var valin verðmætasti leikmaður mótsins (MVP). Innilega til hamingju með valið.
Á tveimur mánuðum hafa unglingalandslið Íslands unnið til gullverðlauna í kvennaflokki og það er frábært afrek. Í næstu viku munu U19 ára landsliðin fara til Finnlands og verður gaman að sjá hvar íslensk blaklandslið standa í þeim aldursflokki.