Ísland með gull í NEVZA U17

Íslenska stúlknalandsliðið gerði sér lítið fyrir og vann lið Danmerkur í úrslitaleiknum í IKAST í dag. Strákarnir töpuðu leiknum um þriðja sætið en áttu góðan leik gegn Færeyingum. Myndaveislur má finna á facebook síðu mótsins.

Íslenska drengjaliðið mætti færeyska liðinu í morgun og áttu nokkuð góðan leik eftir erfiða þrjá leiki í mótinu. Lið Færeyja vann fyrstu hrinuna 25-18 og aðra hrinuna 25-22 eftir góða spretti hjá okkar drengjum. Í þriðju hrinunni tókst Íslandi ekki að halda í við færeyingana sem unnu hana 25-17 og þar með leikinn 3-0. Fjórða sætið því niðurstaðan hjá U17 ára liði drengja.

Ísland komst í úrslitaleikinn eftir að hafa unnið Færeyjar og mánudag og Noreg í gær í frábærum leik. Liðið mætti einbeitt til leiks gegn Danmörku í úrslitaleik en Ísland tapaði fyrir þeim á mánudag. Allt annað var að sjá til liðsins í dag og var frábært að sjá allt ganga upp eftir góða vinnu undanfarna daga í mótinu. Ísland vann nokkuð öruggan 3-0 sigur á því danska, 25-20, 25-14 og 25-19. Þar með er fyrsta gullið komið í NEVZA mótum U17 og U19 í sögu Blaksambands Íslands.

Í verðlaunaafhendingu í dag var draumalið mótsins tilkynnt og átti Ísland fjóra leikmenn í stúlknaliðinu. Lelja Sara Hadziredzepovic díó, Heba Sól Stefánsdóttir miðja, Sóldís Björt Leifsdóttir kantur og Agnes Björk Ágústsdóttir frelsingi. Sóldís Björt var valin verðmætasti leikmaður mótsins (MVP). Innilega til hamingju með valið.

Draumalið U17 stúlkna í IKAST 2021

Á tveimur mánuðum hafa unglingalandslið Íslands unnið til gullverðlauna í kvennaflokki og það er frábært afrek. Í næstu viku munu U19 ára landsliðin fara til Finnlands og verður gaman að sjá hvar íslensk blaklandslið standa í þeim aldursflokki.