Kjörísbikarmeistarar 2021

Um helgina fór fram úrslitahelgin í Kjörísbikarnum. HK vann úrslitaleikinn í kvennaflokki og Hamar vann úrslitaleikinn í karlaflokki. Umgjörðin var frábær eins og alltaf og andrúmsloftið mjög gott í Digranesi þrátt fyrir mjög strangar sóttvarnarráðstafanir bæði meðal áhorfenda og á keppnissvæði.

Alls voru sex leikir á dagskrá um helgina en á föstudag mættust í fyrsta leik kvennalið KA og Völsungs. KA konur áttu góðan leik gegn efsta liðinu í 1. deild, Völsungi sem komst alla leið í undanúrslitin í Kjörísbikarnum. KA vann leikinn 3-0 og komst í úrslitaleikinn sjálfan sem leikinn var sunnudaginn 14. mars.

Í hinni viðureigninni í undanúrslitum kvenna mættust Afturelding og HK. Leikurinn var mjög jafn og skemmtilegur en fór svo að HK hafði sigur 3-1 og mætti KA í úrslitum á sunnudag.

Úrslitaleikurinn í kvennaflokki var spennandi til að byrja með en HK náði tökum á leiknum eftir miðbik fyrstu hrinu og vann hana 25-19. KA liðið byrjaði betur í annarri hrinunni en HK náði þó að jafna og komast yfir um miðja hrinu og vann hrinu 2 nokkuð þægilega 25-16. Þriðja hrinan var svo keimlík fyrstu hrinunum þar sem KA byrjaði betur en HK vann upp muninn og kláraði hrinuna 25-14 og þar með leikinn 3-0. Besti leikmaður bikarúrslitaleiksins var valin Sara Ósk Stefánsdóttir hjá HK en það var svo fyrirliði HK, Hjördís Eiríksdóttir sem tók við Kjörísbikarnum í verðlaunaafhendingu eftir leik en HK var að vinna bikarinn í 6. sinn í sögunni.

HK, Kjörísbikarmeistarar 2021 Mynd: Eva Björk

Undanúrslitaleikir í karlaflokki fóru fram laugardaginn 13. mars í Digranesi en Hamar mættir þar Vestra í fyrsta leik. Hamar hafði þar betur í nokkuð þægilegum sigri 3-0. Í hinni viðureigninni mættust HK og Afturelding. Sá leikur var frábær skemmtun fyrir fullri stúku áhorfenda. Spennan náði hámarki í oddahrinu leiksins eftir að þrjár af fjórum hrinum höfðu farið í upphækkun. Í oddahrinu leiksins hafði Afturelding betur og vann leikinn 3-2.

Úrslitaleikurinn var spilaður sunnudaginn 14. mars í Digranesi. Hamar var að spila í úrslitum í fyrsta sinn en Afturelding vann titilinn árið 2017 og er það eini titill félagsins Bikarkeppni Blaksambandsins. Úrslitaleikurinn var sveiflukenndur þar sem Afturelding byrjaði betur en Hamar náði að vinna upp muninn. Hamar vann fyrstu hrinu 25-23 og hrinu tvö 26-24. Þriðja hrinan var svo sú sem gerði útslagið og Hamar fór með sigur af hólmi 25-21 og þar með leikinn 3-0. Hamar varð því bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins en besti leikmaður leiksins var valinn Wiktor Mielczarek. Það var svo Hafsteinn Valdimarsson, fyrirliði Hamars sem tók við Kjörísbikarnum í verðlaunaafhendingu eftir leik.

Hamar, Kjörísbikarmeistarar 2021 Mynd: Eva Björk

Blaksamband Íslands er umsjónaraðili úrslitahelgarinnar og vill þakka keppendum, dómurum, starfsfólki og áhorfendum sérstaklega fyrir sitt framlag til að gera þessa helgi ógleymanlega. Almennt voru sóttvarnarmál í Digranesi í lagi þó eitt og eitt mál hafi komið upp sem var lagað strax. Það eru mjög margir aðilar sem koma að skipulagningu svona helgar sem fá hér klapp á bakið fyrir sjálfboðaliðastörf.

Allir undanúrslitaleikir voru í streymi á Youtube-rás Blaksambands Íslands og viljum við þakka Ágústi Stefánssyni og hans teymi sérstaklega fyrir þá útsendingu og Andra Hnikarri Jónssyni fyrir lýsingu.

Báðir úrslitaleikirnir voru í beinni útsendingu á RÚV sem gerðu mjög vel með okkar sjónvarpsvænu íþrótt, HK-KA og Hamar-Afturelding. Viljum við þakka öllu starfsfólki RÚV sem kom að leikjunum fyrir þeirra vinnu og sérstaklega þökkum við Sigurbirni Árna Arngrímssyni sem lýsti báðum leikjum og sérfræðingum í setti, Ásthildi Gunnarsdóttur og Theódór Óskari Þorvaldssyni.

Að lokum þökkum við Evu Björk sem tók myndir alla helgina en myndapakka má finna á Facebook síðu Blaksambands Íslands frá öllum leikjum og einnig á Instagram reikningi BLÍ.