Klár í slaginn!

Íslensku liðin mættu fyrst allra liða til Rovaniemi í Finnlandi í morgun eftir um sólarhrings ferðalag úr Laugardalnum. Flogið var frá Íslandi til Stokkhólms og þaðan svo yfir til Helsinki þaðan sem næturlest var tekin. Flestir sváfu vel í lestinni og þegar leið undir morgun var hún komin á endastöð í Rovaniemi, eða um kl. 7:30.

Dagurinn var nýttur til að jafna sig eftir langt ferðalag, finna leiðina í matinn og skoða umhverfið. Hér er snjór og kalt í veðri en Íþróttahöllin við Santasport hótelið er glæsilegt en þar æfðu bæði lið seinni part dags. Liðsfundir og sjúkraþjálfun var undir kvöld og liðin klár í slaginn á morgun en liðin spila bæði tvo leiki á morgun.

Því miður greindist COVID smit hjá einum liðsmanni norska stúlknaliðsins í gær og þurfti liðið að draga sig úr keppni. Því hefur dagskrá mótsins kvennamegin riðlast og leika nú 5 lið, allir við alla og úrslit á sunnudag. Sjá má dagskránna hér. Á síðunni má finna Results/Links en þar munu koma hlekkir á streymi frá leikjunum en staðarblaðið sér um streymi frá öllum leikjunum hér og þarf að skrá sig inn og greiða 1 Evru fyrir mánuðinn.

Drengjaliðið mætir Svíum kl. 9:15 (kl. 6:15 að íslenskum tíma) í Santasport höllinni og stelpurnar mæta síðan Finnlandi kl. 11:15 (8:15 að íslenskum tíma). Drengirnir mæta svo Finnlandi kl. 13:30 (10:30 að íslenskum tíma) og stelpurnar svo Svíum kl. 20.00 (17.00 að íslenskum tíma).

Það verður gaman að fylgjast með U19 landsliðunum hér í Finnlandi og hvetjum við alla til að horfa á. Starfslið íslenska hópsins er vel mannað eins og sést á myndinni sem fylgir fréttinni en myndina tók Paula Del Olmo Gomez, aðstoðarþjálfari stúlknaliðsins.

Hægt er að sjá myndir frá mótinu á FB: @nevza19 og Instagram; @nevzau192021