Lætur af störfum eftir 17 ár

Lætur af störfum eftir 17 ár

Í dag, þann 13. apríl lét Sævar Már Guðmundsson af störfum sem framkvæmdastjóri Blaksambandsins eftir tæplega 17 ára starf. Honum voru þökkuð góð störf fyrir hreyfinguna í höfuðstöðvum Blaksambandsins í dag en BLÍ og ÍSÍ færðu honum gjafir við starfslokin.

Sævar var ráðinn í 70% starf þann 1. ágúst 2005, en nokkur undangengin ár hafði aðeins verið framkvæmdastjóri í 50% stöðu hjá BLÍ. Fljótlega færðist hans hlutfall upp í fullt starf og uppgangur sambandsins hafinn svo um munaði á þessum fyrstu árum Sævars. Landsliðum fjölgaði strax árið 2006 og varð meiri fjölgun næstu ár á eftir. Árið 2005 töldu iðkendur um 1.600 manns en umfang starfsemi Blaksambandsins var orðið mun meira í kringum árin 2008-2010 þegar deildakeppnin stækkaði. Iðkendur eru í dag 3560 talsins samkvæmt tölum sem liggja fyrir ársþingi BLÍ. Landsliðsverkefnum fjölgaði mikið á árunum frá 2014 og voru skipulögð alþjóðlegt mót í nokkur ár í röð. Sérstaklega má minnast Smáþjóðaleikanna árið 2015 í því samhengi og önnur stór verkefni á borð við þátttöku landsliðanna í undankeppni fyrir HM 2018 og nokkur Smáþjóðamót sem BLÍ skipulagði. 

Sævar kom að innleiðingu rafrænnar leikskýrslu á árunum 2012 til 2014 sem hefur einfaldað leikskýrslugerð í blakleikjum í samstarfi við ítalskt fyrirtæki. Síðar var það svo tekið upp að vera með sjálfvirkt streymi á öllum leikjum úrvalsdeilda karla og kvenna, bikarnum og úrslitakeppni Íslandsmóts. Samstarfið við Genius hefur gengið vel en það fyrirtæki sér einnig um rafrænu leikskýrsluna og tölfræðiforritin.

Segja má að Sævar skili af sér þroskuðu sérsambandi frá því sem var árið 2005 enda sjá það allir að umfangið hefur aukist töluvert enda eru nú tvö full stöðugildi og þyrfti sennilega að bæta við og stækka enn meira ef vel á að vera. Blaksamband Íslands verður 50 ára í haust og þannig komið vel á legg. Gefum Sævari lokaorðin að sinni en Blaksambandið óskar honum velfarnaðar í næstu verkefnum.

„Ég vil skila kveðju til allra í íþróttahreyfingunni og þakka gott samstarf. Starfið var mjög krefjandi oft og tíðum, reksturinn stundum erfiður en undanfarin ár hafa gengið mjög vel. Það er erfitt að kveðja eftir þetta langan tíma en þegar ég lít til baka er ég stoltur af mínu framlagi til blakíþróttarinnar. Ég vil óska stjórn BLÍ, starfsfólkinu, sjálfboðaliðunum og ekki síst nýjum framkvæmdastjóra velfarnaðar í starfinu“, segir Sævar Már Guðmundsson, fráfarandi framkvæmdastjóri.