Mundína Ásdís Kristinsdóttir – Kveðja frá Blaksambandi Íslands

Við kvöddum Mundínu Ásdísi Kristinsdóttur í gær og kvöddum hana alltof fljótt og hafa síðustu dagar verið okkur í blakhreyfingunni þungbærir. Munda var sá aðili innan blakfjölskyldunnar sem allir gátu leitað til sama í hvaða liði þeir voru og ávallt voru dyrnar opnar hvort sem aðilar þurftu á aðhlynningu að halda vegna líkamlegra verkja en ekki síður til að fá andlegan stuðning. Munda var vinur í sterkustu lýsingu þess orðs, ávallt til staðar, tilbúin að hlusta, hlúa að og styðja við einstaklinginn og liðið. Munda var ekki bara liðsmaður, hún var sú sem hélt liðinu saman, barðist fyrir það og leiðbeindi þegar á þurfti að halda. Hennar verður sárt saknað og missirinn er mikill. 

Munda hafði sterkar skoðanir á því sem viðkom blaki á Íslandi og þá ekki síst á  afreksstarfi Blaksambandsins. Hún var í landsliðsnefnd ásamt því að taka sæti sem varamaður í stjórn Blaksambands Íslands. Blaksambandið naut þess í ríkum mæli að hafa Mundu sem fagaðila í kringum landsliðin og  þar barðist hún fyrir faglegu starfi, bæði utan og innan vallar. Fagleg, heiðarleg, réttsýn og hreinskilin eru nokkur af þeim orðum sem lýsa henni og hún var ávallt tilbúin að leggja lið, aðstoða og hjálpa.  

Munda var baráttukona og kom það ekki síst í ljós í þeim veikindum sem að lokum drógu úr henni þrek og þor. Með óbilandi hugrekki og elju ásamt þeim lífskrafti sem einkenndu hana tókst hún á við sitt stærsta verkefni, skipulögð og tilbúin að leggja sitt á vogaskálarnar til að ná settu marki. Æðruleysi og hugrekki einkenndu hana og hún sýndi okkur öllum að það er hægt að vera sigurvegari þó að leikurinn hafi tapast. 

Blakfjölskyldan hefur misst mikið við andlát Mundu og það sýnir sig í þeim samhug sem hefur ríkt meðal okkar síðustu daga. Munda snerti alla sem hún kom nálægt og skildi eftir sig minningar hjá hverjum og einum sem í dag eru verðmætar og hjálpa okkur í sorginni. 

Ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá að vinna með Mundu í mörg ár í sjálfboðaliðastarfi fyrir blak á Íslandi og því er ég ekki einungis að að kveðja góðan félaga heldur kæra vinkonu sem ávallt var til staðar fyrir þá sem á þurftu að halda. Ég mun sakna þess að geta ekki átt samtölin og skoðanaskiptin og að geta leitað til hennar um hin ýmsu mál, stór og smá.  Virðing mín fyrir Mundu er óendanleg og þau tár sem hafa fallið síðustu daga lýsa einungis litlum hluta af þeim söknuði að hafa hana ekki hjá okkur lengur.  

Missirinn er stærstur og sárastur hjá fjölskyldu Mundu. Hugur okkar er hjá ykkur og fyrir hönd blakfjölskyldunnar sendum við ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og þakkir fyrir allt það starf sem Munda tók að sér fyrir blak á Íslandi. Guð blessi og varðveiti minningu Mundínu Á. Kristinsdóttur og hún mun lifa áfram í okkar huga og verkum. 

Fyrir hönd stjórnar og starfsmanna BLÍ  

Grétar Eggertsson 

formaður