Næstu landsliðsverkefni

Unglingalandsliðin fara til Danmerkur um miðjan desember í undankeppni fyrir EM 2022 og A landsliðin fara á NOVOTELNú þegar afreksstarfið hjá Blaksambandinu er komið af stað aftur er ekki úr vegi að kynna hvað er svo næst. Í desember er fyrirhugað að unglingalandslið fari til Danmerkur í svæðisundankeppni fyrir EM 2022.

Ísland hefur áður sent lið í slíka keppni en að þessu sinni sendum við U17 stúlkur (2006 og síðar) og U18 drengi (2005 og síðar). Stúlknaliðið fer til Köge og drengjaliðið til Hellehallen á Jótlandi og er áætlað að ferðin sé frá 16.-20. desember. Þjálfarar verða þeir sömu og voru með U17 liðin í NEVZA, Tamas með stúlkurnar og Massimo með strákana. Æfingahópar verða tilkynntir fljótlega.

Bæði A landslið Íslands fara á NOVOTEL CUP í Luxemborg dagana 28.-30. desember. Verið er að klára undirbúning fyrir ferðina og velja í æfingahópa en reiknað er með ferðalagi út þann 27. desember og heim 31. desember (gamlársdagur). Aðalþjálfari karlalandsliðsins í þessu verkefni er Burkhard Disch og fyrir kvennaliðið Borja Gonzalez Vicente. Liðin munu æfa dagana 20.-23. desember á höfuðborgarsvæðinu en á næstu dögum verða æfingahóparnir tilkynntir.