Óli Þór lætur af störfum hjá BLÍ

Óli Þór Júlíusson, sem gegnt hefur starfi mótastjóra BLÍ undanfarin ár, hefur ákveðið að breyta um starfsvettvang og hefur látið af störfum fyrir Blaksamband Íslands. Óli Þór er menntaður grasvallafræðingur og bauðst honum starf aðstoðarvallastjóra hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar sem hann þáði. Óli Þór hefur undanfarin 4 ár gegnt starfi mótastjóra BLÍ og staðið sig með mikilli prýði og þó sérstaklega undanfarin misseri þar sem miklar áskoranir voru í mótaskipulagi með tilheyrandi álagi sökum heimsfaraldurs. Samkomulag hefur verið gert milli BLÍ og Óla Þórs um starfslok og hefur hann þegar látið af störfum hjá BLÍ og hafið störf hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar þar sem vertíðin er hafin á golfvöllum landsins. Óli Þór mun þó koma inn fljótlega og aðstoða og sjá um þjálfun og kennslu á arftaka sínum í starfi hjá BLÍ.

Óli vill koma á framfæri þökkum til aðildarfélaga, sjálfboðaliða og starfsfólks sem hann hefur unnið með í gegnum tíðina á þessum vettvangi fyrir gott og ánægjulegt samstarf og hvetur þau áfram til góðra verka.

Við  þökkum Óla Þór Júlíussyni hjartanlega fyrir vel unnin störf fyrir Blaksamband Íslands og aðildarfélögin á liðnum árum og óskum honum velfarnaðar í nýju starfi og á nýjum vettvangi. Hafin er leit að nýjum starfsmanni í starf mótastjóra og áhugasömum bent á að hafa samband við framkvæmdastjóra BLÍ.