Rósborg Halldórsdóttir nýr mótastjóri BLÍ

Gengið hefur verið frá ráðningu mótastjóra hjá BLÍ og er það Rósborg Halldórsdóttir sem tekur við starfinu af Óla Þór Júlíussyni sem sinnt hefur starfi mótastjóra sl. 4 ár. Rósborg er alls ekki ókunnug blaki, en hún er uppalin í Mosfellsbæ og spilaði með Aftureldingu allt til ársins 2016 þegar hún flutti til Bandaríkjanna að spila háskólablak. Síðustu ár hefur hún búið í Georgíu fylki og starfað sem blak þjálfari og dómari samhliða tónlistarnámi. Rósborg hefur unnið að uppbyggingu á barnastarfi hjá blakklúbbnum Colavol í Georgíu undanfarin ár og hlakkar til að taka þátt í starfi blaksambandsins sem mótastjóri. Rósborg mun sinna starfinu bæði á skrifstofu BLÍ og í fjarvinnu frá Ameríku. Þess má geta að Rósborg verður á landinu í sumar og hefur hún undanfarið unnið að skipulagningu skólablakverkefnis BLÍ ásamt því að stýra fræðslu og útbreiðslunefnd BLÍ. Við bjóðum Rósborgu velkomna í teymið og erum mjög spennt fyrir samstarfinu og komandi tímum.