Siðareglur BLÍ

Til hliðsjónar voru hafðar siðareglur ÍSÍ þar sem BLÍ er aðildarsamband ÍSÍ og nýtir sér innviði ÍSÍ, t.a.m. dómstól ÍSÍ við lúkningu ákveðinna mála. Komi upp vafi um þessar reglur, hvort sem er um túlkun þeirra, gildissvið eða ákveðna einstaklinga skal hlutaðeigandi snúa sér til yfirmanna BLÍ, formanns eða framkvæmdastjóra um skýringar.  Slíkt skal ekki túlkað sem brot á þeim reglum sem hér fara að neðan. 

Gildissvið:

Allir þeir aðilar sem starfa fyrir BLÍ eða á vegum BLÍ og koma fram í nafni BLÍ eiga að kynna sér reglurnar og staðfesta með undirskrift sinni, að þeir hafi lesið þær.   Reglurnar gilda frá 1 maí 2018.


1. Kynntu þér og tileinkaðu þær siðareglur sem hér er að finna. Komdu fram af heilindum og láttu framkomu þín endurspegla viðhorf þitt til grundvallarreglna Blaksambands Íslands.


2. Gættu þess að misbjóða ekki einstaklingi eða hópi einstaklinga t.d. hvað varðar kynferði, kynvitund, þjóðerni, kynþátt, litarhaft, menningu, tungumál, trúarbrögð, kynhneigð og stjórnmálaskoðanir.  Hafðu í huga að mismunandi gildi eru á milli mismunandi menningarheima og það sem þykir eðlilegt á einum stað þykir einkar óviðeigandi á öðrum stað.  Ef aðilar sem starfa saman hjá BLÍ eiga í sambandi ber að láta vita um það og skulu sambandsaðilar gæta þess að vera ekki með kynferðislegan undirtón, óviðeigandi hegðun o.s.frv. þar sem það á ekki við.

3. Beittu aldrei barn, eldri iðkanda, samstarfsmann eða annan aðila, líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi.  Með andlegu ofbeldi er átt við þá hegðun þar sem þolanda líður illa.  Hverskonar niðrandi ummæli eru óheimil. Ef þú verður áskynja þess að ofbeldi sé beitt skaltu strax tilkynna slíkt.  Þetta á líka við um hverskonar samfélagsmiðla.

4. Gerðu þér grein fyrir hlutleysi og trúnaðarskyldum við störf og gættu að vandvirkni, heiðarleika og samviskusemi í starfi fyrir BLÍ og að orð og athæfi samrýmist starfi, umhverfi, stund og stað.


5. Stuðlaðu að góðum samskiptum við alla þá aðila sem þú þarft að vera í samskiptum við, vegna starfs þíns og titils.  Þú skalt aldrei eiga í samskiptum við aðila með kynferðislegum undirtón eða vísa í eitthvað slíkt, sérstaklega þegar um ólögráða einstaklinga er að ræða.


6. Taktu ekki við gjöfum eða öðrum verðmætum ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist. Gefðu heldur ekki gjafir og þess háttar ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist. Eðlileg gjöf telst vera að hámarksverðmæti €100.

7. Ekki misnota aðstöðu þína til fjárhagslegs ávinnings hvort sem um er að ræða mútur, umboðslaun, loforð um umboðslaun eða hverskonar aðra umbun umfram þau laun sem þér eruð ætluð sem laun frá BLÍ.

Ekki taka þátt í veðmálum, fjárhættuspilum eða þess háttar viðburðum þar sem þú getur haft áhrif á úrslit.

8. Þér er skylt að gæta þagmælsku um hver þau atriði sem þú hefur orðið áskynja í starfi og geta talist persónulegar upplýsingar.  Þér er skylt að tilkynna þess til bærum yfirvöldum ef þú hefur ástæðu til að ætla að barn búi við óvinunandi aðstæður, verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi, eða heilsa þess og þroski sé í alvarlegri hættu.

9. Vertu til fyrirmyndar í framkomu og hegðun.


10. Brot á siðareglum BLÍ geta varðað brottrekstri úr starfi. 

Sérákvæði fyrir sérhlutverk:


Fyrir dómara á vegum BLÍ

1. Settu öryggi og heilsu leikmanna fram yfir allt annað.

2. Sýndu leikmönnum, þjálfurum og öðrum sem koma að leiknum virðingu.

3. Misnotaðu aldrei stöðu þína sem dómari.


Fyrir leikmenn sem valdir eru í landsliðshóp á vegum BLÍ

1. Virtu allar þær reglur og skilboð sem landsliðsþjálfari eða forysta BLÍ gefur út fyrir landsliðsmenn.

2. Gerðu alltaf þitt besta og berðu virðingu fyrir öðrum.

3. Berðu virðingu, bæði fyrir sam- og mótherjum.

4. Gerðu þér grein fyrir því að þú ert fyrirmynd þeirra sem yngri eru.

Verklagsferill við brot á reglum.

Stjórn BLÍ skal skipa þrjá einstaklinga í siðanefnd sem tekur fyrir þau mál sem vísað er til hennar. Nefndin getur einnig tekið upp mál sem hún telur að þurfi að athuga.

Telji einhver aðili að þessar reglur hafi verið brotnar skal hann vísa málinu til stjórnenda, sem eru í dag formaður og framkvæmdastjóri BLÍ. Málið verður skoðað í framhaldinu og því vísað áfram svo sem til siðanefndar BLÍ, aganefndar BLÍ, landsliðsnefndar BLÍ, dómstóls ÍSÍ, dómaranefndar BLÍ eða annarra viðeigandi úrræða.

Öllum erindum verður svarað svo fljótt sem verða má. Ekki skulu líða meira en fjórar vikur frá móttöku erindis þar til svar verður sent.

Ef um er að ræða ofbeldisbrot gegn barni skal málinu vísað til barnaverndarnefndar, til frekari úrvinnslu eða lögreglu eftir því sem við á.   Eftirvinnsla málsins fer þá úr höndum BLÍ. 

Ef upp koma mál sem snúa að ætluðum hegningarlagabrotum er stjórnendum skylt að tilkynna þau til lögreglu.

Reglur samþykktar á stjórnarfundi BLÍ þann 8. maí 2018.