Ofurbikarinn 2020

Um helgina fer fram nýtt mót sem var sett á laggirnar í haust. Ofurbikarinn er fyrir lið sem spila í Mizunodeild í blaki og að þessu sinni verða 5 karlalið og 5 kvennalið í keppni á Akureyri.

Leikið er í þremur íþróttahúsum um helgina en kvennaliðin spila í Naustaskóla á föstudagskvöld og í KA heimilinu á laugardag. Karlarnir spila sína leiki í Íþróttahöllinni á Akureyri á föstudagskvöld og laugardag.

Í undankeppninni er leikið upp í 2 unnar hrinur en á sunnudag verða svo fjórir fullvaxta leikir þar sem vinna þarf 3 hrinur í leikjum um þriðja sætið og svo úrslitaleikur um Ofurbikarinn.

Leikjaplan er hér en það verður svo endanlega sett upp í mótakerfinu á morgun föstudag.

Blaksambandið og blakdeild KA hafa séð um skipulagningu mótsins en þetta verða fyrstu blakleikirnir á Íslandi síðan samkomubann var sett á þann 16. mars sl.