Smáþjóðaleikar – Dagur 4

Dagur fjögur bauð kvennaliðinu upp á leik við Liechtenstein kl. 09:00 í morgun og karlaliðinu leik við Mónakó kl. 16:00.

Fyrir leikinn var kvennaliðið búið að vinna tvo leiki og tapa einum en Liechtenstein hafði tapað öllum sínum. Íslenska liðið spilaði með miklum yfirburðum frá upphafi til enda. Borja, þjálfari liðsins, náði að rótera liðinu vel sem er nauðsynlegt á mótum sem þessu. Hrinurnar fóru 25:17, 25:15 og 25:21 fyrir Ísland og þar með þriðji sigurinn á mótinu staðreynd. 

Seinni tveir kvennaleikir dagsins voru 3:0 sigur Svartfjallalands á Lúxemborg og 3:0 sigur Kýpverja á San Marínó. Þau úrslit þýða það að stelpurnar okkar hafa tryggt sér að minnsta kosti brons á leikunum. Liðið spilar síðasta leik mótsins á morgun við Svartfjallaland og hefst sá leikur kl. 09:00 (ísl). 

Karlalandsliðið tók síðan á móti Mónakó seinni partinn. Bæði liðin höfðu tapað öllum sínum leikjum á mótinu og því ljóst að bæði lið væru æst í sigur. Íslenka liðið byrjaði af miklum krafti og vann fyrstu hrinu 25:15. Mónakó menn voru ekki sáttir með það og tóku aðra hrinu öruggt 25:16. Þriðja og fjórða hrina þróuðust svipað. Liðin voru jöfn framan af en síðan gáfu Mónakó menn í og unnu hrinurnar 25:21 og 25:22 og þar með leikinn 3:1. Liðið klárar mótið á leik við Kýpur á morgun kl. 14:00 (ísl).

Síðari leikir dagsins voru sigur Svartfjallalands á San Marínó 3:0 og sigur Kýpur á Lúxemborg 3:1.