Strákarnir komnir heim frá Færeyjum – Kristinn Freyr í úrvalsliði mótsins.

Síðasti leikur keppninnar var gegn heimamönnum - Færeyingum. Fyrir leikinn átti liðið möguleika á að ná í þriðja sæti mótsins. Jason Ívarsson liðsstjóri liðsins gefur okkur innsýn inn í lokadaginn í Færeyjum.

Það voru allir í sólskinsskapi í dag þegar sólin skein glatt eftir rigningu síðustu daga. Okkar strákum gekk ekki nógu vel að finna taktinn í fyrstu hrinunni en voru þó aldrei langt á eftir andstæðingunum. Hrinan tapaðist 25-18.

Önnur hrinan byrjaði svipað og sú fyrsta. Strákarnir voru skrefi á eftir í byrjun en þeir jöfnuðu í stöðunni 11-11 og það var meira og minna jafnt á öllum tölum fram að 22-22. Þá sigu Færeyingarnir framúr og unnu hrinuna 25-23. Það fóru helst til margar uppgjafir á mikilvægum tímabilum forgörðum í hrinunni.

Strákarnir byrjuðu þriðju hrinuna betur og voru yfir þangað til Færeyingarnir jöfnuðu í stöðunni 9-9. Þegar þeir voru komnir í 18-13 kom í ljós villa í uppstillingu á liði þeirra svo að staðan breyttist í 14-14. Það dugði ekki til þó að strákarnir hafi sýnt góð tilþrif og mikla baráttu á köflum. Færeyingarnir unnu hrinuna 25-21 og leikinn þar með 3-0.

Ísland átti einn fulltrúa í úrvalsliði mótsins. Kristinn Freyr Ómarsson var valinn besti frelsinginn (libero) og var vel að þessu vali kominn.

Eins og í fyrri leikjum þá dreifðu þjálfararnir spilinu á milli allra leikmannanna og þeir sem voru laskaðir eftir laugardaginn voru í fullu fjöri daginn eftir.

Þó að liðið hafi ekki unnið leik þá voru þjálfararnir ánægðir með það hvernig liðið spilaði og hvernig það nálgaðist verkefnið. Það er ljóst að þarna eru framtíðarlandsliðsmenn á ferð. Þjálfarar annarra liða töluðu líka um það hversu kraftmiklir þessir ungu leikmenn væru og með réttu hugarfari og ástundun ættu þeir að geta náð langt í íþróttinni.

Strákarnir fara flestir til Tyrklands miðvikudagsmorguninn og leika um komandi helgi þrjá leiki í undankeppni Evrópumótsins í U22 ára.