Aganefnd BLÍ hefur fjallað um atvik í leik KA og HK þann 13. apríl sl. í leik nr. 3 í rimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla. Eftir að hafa skoðað gögnin sem lágu fyrir nefndinni var ákveðið að hafa ekki frekari afskipti af málinu.
Aganefnd BLÍ starfar sjálfstætt eftir agareglum Blaksambandsins sem finna má á heimasíðunni. Málavextir í þessu máli er erindi sem blakdeild HK sendi inn vegna athugasemdar á leikskýrslu leiksins frá starfsmanni leiks er varðar framkomu leikmanns/þjálfara KA í leikbanni eftir leik. Kallaði Aganefnd eftir skýrslu um atvikið frá starfsmanni leiksins og í þeirri skýrslu er athugasemdin á leikskýrslunni dregin til baka. Lítur aganefnd svo á að tilefni kæru sé ekki til staðar lengur vegna atviksins og vísar málinu frá.
Í bréfi Aganefndar BLÍ til stjórnar BLÍ segir jafnframt:
„Þetta er í þriðja sinn á stuttum tíma sem Aganefnd BLÍ er virkjuð vegna atvika í leikjum í úrslitakeppninni og það er einlæg ósk okkar að stjórn BLÍ taki, í samráði við fulltrúa þessara félaga, af festu á þessu þannig að vegur íþróttarinnar verði sem mestur. Atvik eins og þessi eru til þess eins fallin að spilla fyrir íþróttinni.“
HK og KA leika 4. leikinn um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla í kvöld og hefst leikurinn kl. 19.30 í Fagralundi í Kópavogi. Leikurinn er jafnframt sýndur á Sporttv.