Um helgina mun BLÍ bjóða uppá þjálfaranámskeiðið BLÍ 1 í fyrsta skiptið og mun svo í framhaldinu halda námskeiðið BLÍ 2 um miðjan júlí. Um er að ræða fagnámskeið sem, ásamt ÍSÍ námskeiðum, veita gráður í þjálfaramenntun BLÍ.
BLÍ ætlar að bjóða þjálfurum með eftirfarandi reynslu að sitja námskeiðin sér að kostnaðarlausu núna í sumar:
- Þeir sem hafa starfað sem aðalþjálfari í a.m.k. 1 keppnistímabil hjá meistaraflokksliði í 1. deild eða úrvalsdeild Íslandsmóts.
- Þeir sem hafa starfað sem aðalþjálfari í a.m.k. 3 ár hjá liði/liðum í neðri deildum Íslandsmóts.
- Þeir sem hafa starfað sem aðalþjálfari í a.m.k. 3 ár við yngri flokka þjálfun.
Það er stefna BLÍ að allir þjálfarar sitji námskeið sambandsins til að öðlast þjálfaragráður BLÍ. Geti menn hins vegar sýnt fram á að þeir hafi lokið viðurkenndri menntun sem er sambærileg þeirri sem boðið er uppá á námskeiðum BLÍ, er hægt að sækja um að fá slíka menntun metna upp í þjálfaragráðu í stað þess að sitja námskeið BLÍ. Allar slíkar umsóknir eru skoðaðar sérstaklega í fræðslu- og útbreiðslunefnd BLÍ.