Viðburðadagatal BLÍ uppfært

Viðburðadagatal BLÍ hefur verið uppfært á vefnum og er dagskráin þétt. Stigamótin í strandblaki verða á fullu í sumar og hæfileikabúðir í blaki fyrir ungmenni frá 12-19 ára í ágúst. Þá eru dagsetningar móta neðri deilda og yngriflokka fyrir næsta vetur komnar inn í viðburðadagatalið ásamt landsliðsgluggum sem þó á eftir að staðfesta.

Hæfileikabúðir í blaki eru fyrir ungmenni frá 12-19 ára en hópnum er skipt upp 12-15 ára og 16-19 ára. Allir iðkendur á aldrinum 12-19 ára eru velkomnir.
Á dagskránni er að hafa búðir 13.-15. ágúst í Mosfellsbæ fyrir ofangreindan aldur en einnig er verið að kanna hvort hægt sé að halda hæfileikabúðir helgina 27.-29. ágúst utan höfuðborgarsvæðisins. Ekki er enn staðfest um staðsetningu þeirra búða en frekari upplýsingar verða kynntar um leið og staðsetning liggur fyrir. Allar upplýsingar um búðirnar verða sendar út fljótlega ásamt því að opnað verður fyrir skráningar.

Í haust er á dagskránni nokkur verkefni fyrir unglingalandslið Íslands en þó stjórnar COVID 19 mögulega hvort af mótum verði. Stefnt er að því að U19 kvenna spili í móti á Íslandi fyrstu helgina í september og U20 drengja í Færeyjum í byrjun október. Þetta á þó enn eftir að staðfesta. Þá eru NEVZA mótin komin á dagskrá í október fyrir U17 í IKAST og U19 í Rovaniemi í Finnlandi. BLÍ hefur gert ráð fyrir að taka þátt í þessum mótum og látið mótshaldara vita en löndin sjálf munu staðfesta hvort mótin fari fram fyrir 1. september, en það er háð stöðunni á faraldrinum COVID 19 í löndunum.