Í dag var dregið í fyrstu tvær umferðir Kjörísbikarsins í höfuðstöðvum Blaksambandsins í Laugardal.
Tólf karlalið eru skráð til leiks og þrettán kvennalið. Öll úrvalsdeildarliðin eru með í ár ásamt Blakfélagi Hafnafjarðar (BFH), Völsungi og BF í karlaflokki. Í kvennaflokki voru það BFH, Keflavík, Einherji, UMFG, Völsungur, BF og Fylkir sem bættust við úrvalsdeildarliðin.
Fyrstu tvær umferðirnar verða leiknar frá 9. október til 5. nóvember en dregið verður sérstaklega í 3. umferð þegar ljóst er hvaða lið verða í pottinum þá ásamt úrvalsdeildarliðunum.
Í 1. umferð mætast BF og Völsungur á Siglufirði í karlaflokki og BFH situr hjá.
Í 2. umferð mætast svo annað hvort BF eða Völsungur liði BFH fyrir norðan.
Í 1. umferð í kvennaflokki mætast BFH og Keflavík í Hafnarfirði á meðan Einherji og UMFG sitja hjá.
Í 2. umferð mætir UMFG annað hvort BFH eða Keflavík í Grundarfirði, Einherji fær Völsung í heimsókn á Vopnafjörð og Fylkir tekur á móti BF í Árbænum.
Dagsetningar þessara leikja verða kynntar strax eftir helgi.