Undanfarnar vikur og mánuði hefur vinnuhópur á vegum Stjórnar BLÍ, mótsnefndar Steinaldar og Öldungaráðs unnið að því að skoða mögulegar útfærslur á Öldungamóti BLÍ 2021 sem átti að vera í Vestmannaeyjum í vor. Vinnuhópurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að halda mótið í vor vegna fjöldatakmarkana í samfélaginu v/COVID 19. Mótinu er því aflýst árið 2021 og mun HK halda næsta mót vorið 2022.
Tilkynning frá vinnuhópnum
Kæru blaköldungar og aðrir blakunnendur,
Okkur þykir miður að tilkynna ykkur að Öldungamóti BLÍ árið 2021 hefur verið aflýst. Mótið átti að fara fram mánaðamótin apríl/maí í Vestmannaeyjum. Mótshaldarar, forysta BLÍ og Öldungaráð hafa átt fundi og rætt mikið saman og niðurstaða þeirrar vinnu er sú að þær sóttvarnareglur, þá aðallega fjöldatakmarkanir, gera það að verkum að mótið er ekki framkvæmanlegt þetta árið.
Upprunalega átti mótið að fara fram vorið 2020 en frestaðist um ár ásamt því að mótið hjá HK, sem átti að vera 2021 var fært til ársins 2022.
Ákveðið hefur verið að mótið árið 2022 fari fram hjá HK en mótshaldarar Steinaldar (blakdeild ÍBV og Blakfélag Fjallabyggðar) liggja nú undir feldi og skoða hvort óskað verði eftir því að halda mótið árið 2023. Vinna við þá ákvörðun fer fram á næstunni.
Við vitum að þetta eru ekki skemmtilegar fréttir en því miður raunveruleikinn eins og hann blasir við okkur í dag. Hins vegar er ástandið í samfélaginu alltaf að verða betra og undanfarnar vikur hafa leikir í Mizunodeildunum og 1. deild kvenna farið fram. Forkeppni Kjörís bikarsins er að hefjast og munu 8-liða úrslitin fara fram fyrstu helgina í marsmánuði og úrslitahelgin um miðjan mars. Til þessa hefur ekki verið hægt að halda Íslandsmót neðri deilda en við erum bjartsýn á að mótshelgin í lok mars geti farið fram. Þá er Blaksambandið búið að skipuleggja deildarbikar neðri deilda sem er landshlutakeppni og munu fyrstu leikirnir fara fram á næstunni.
BF er síðan að skoða þann möguleika að Sigló Hótel-Benecta mót félagsins geti farið fram í einhverri mynd og þá jafnvel 30. apríl til 1. maí 2021 og það væri gaman ef önnur félög skoði þann möguleika að hafa félagsmót, þó smærri séu, á vordögum.
Með blakkveðju,
F.h. vinnuhópsins
Óskar Þórðarson
Öldungur 2020/2021