Unglingalandsliðin í blaki U17 komu til IKAST í gær til að taka þátt í NEVZA móti í þessum aldursflokki. Liðin byrjuðu að spila í morgun með sigri og naumu tapi.
Eftir langan ferðadag í gær var tekið á því á æfingu í IKAST í gærkvöld. Snemma í morgun voru bæði liðin komin í landsliðsbúning til að spila fyrsta leikinn, stelpurnar gegn Noregi og strákarnir gegn Færeyjum.
Stelpurnar spila með Noregi, Færeyjum og Grænlandi í riðli en leikurinn í morgun var gríðarlega jafn og spennandi gegn Noregi. Eftir tap í tveimur fyrstu hrinunum 24-26 og 22-25 var komið að Íslandi að vinna næstu 27-25 og tryggja svo stig og oddahrinu með 25-18 sigri. Liðið átti erfitt uppdráttar í oddahrinunni og tapaði 10-15 og þar með leiknum 2-3. Liðið spilar svo við Færeyjar í dag kl. 15.00 að íslenskum tíma og er leikurinn sýndur á www.volleytv.dk
Strákarnir spila í einni deild með 6 liðum og spila þeir því 5 leiki fyrstu tvo dagana í mótinu. Á lokadeginum er spilað um sæti þar sem 1 og 2 spila úrslitaleikinn, 3 og 4 spila um bronsið og 5 og 6 um 5. sætið.
Ísland vann lið Færeyja í morgun 0-3. Mikil barátta var í leiknum hjá báðum liðum sem Ísland hafði betur 23-25, 25-27 og 19-25. Drengirnir spila við Dani kl. 15:30 að íslenskum tíma.