Blaklandsliðin hófu keppni í dag á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi. Konurnar mættu Kýpur í morgun kl. 9 og karlarnir mættu heimamönnum klukkan 16.
Konurnar byrjuðu fyrstu tvær hrinurnar í dag mjög vel og voru liðin jöfn þangað til Kýpverjar sigu fram úr og unnu fyrstu hrinu 25:18 og aðra hrinu 25:15. Byrjun þriðju hrinu leit ekki vel út fyrir íslenska liðið en Kýpur komst í 10:2 forystu. Þá hrökk íslenska liðið í gang, minnkaði muninn í 1 stig og komst loks yfir í 20:19. Síðustu mínútur hrinunnar voru æsispennandi en endaði með kýpverskum sigri 25:23. Konurnar mæta San Marínó á morgun klukkan 11:00 (ísl).
Síðari tveir kvennaleikir dagins voru 3:0 sigur Svartfellinga á Liechtenstein og 3:0 sigur San Marínó á Lúxemborg.
Karlarnir tóku svo á móti Svartfellingum klukkan 16. Svartfellingar voru taldir sigurstranglegir á mótinu og því gert ráð fyrir erfiðum leik. Íslensku strákarnir áttu stórgóða 1.hrinu. Þeir voru yfir megnið af hrinunni, en undir lokinn náðu gestgjafarnir forystu og komust yfir 22:20.
Eftir æsispennandi lokamínútur kláruðu strákarnir okkar hrinuna 25:23. Svartfellingar unnu síðustu 3 hrinurnar, 25:20, 25:20, 25:14 og þar með leikinn 3:1. Þeir mæta San Marínó á morgun klukkan 14:00 (ísl).
Síðari tveir karlaleikir dagsins voru 3:1 sigur Lúxemborg gegn Mónakó og 3:0 sigur Kýpur gegn San Marínó.