Ævarr Freyr Birgisson er blakmaður ársins 2019

Ævarr Freyr Birgisson er blakmaður ársins 2019

Stjórn BLÍ hefur valið Ævarr Frey Birgisson blakmann ársins 2019.

Ævarr Freyr er 23 ára leikmaður Marienlyst í Danmörku en þar hefur hann leikið síðustu tvö keppnistímabil.

Ævarr Freyr er blakmaður ársins í fyrsta sinn. Hann er uppalinn hjá KA á Akureyri en er í dag leikmaður Marienlyst í Danmörku. Á síðasta keppnistímabili endaði lið hans í 2. sæti í úrvalsdeildinni í Danmörku en í 3ja sæti um danska meistaratitilinn þar sem Ævarr var í lykilhlutverki.

Einnig endaði lið hans í 2. sæti í NEVZA keppni félagsliða sem haldin var í febrúar á þessu ári. Á þessu keppnistímabili er lið hans að berjast um toppsætin í úrvalsdeildinni og Ævarr fastamaður í liðinu. Eftir gott tímabil spilaði Ævarr með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi þar sem hann var einn af burðarásum liðsins.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ævarr leikið 34 leiki með íslenska landsliðinu.

Ævarr Freyr er frábær íþróttamaður og mikil fyrirmynd fyrir unga og efnilega blakara.

Blaksamband Íslands óskar Ævarri til hamingju með titilinn.