Helena Kristín Gunnarsdóttir er blakkona ársins 2019

18/12/2019 Helena Kristín er blakkona ársins 2019

Stjórn BLÍ hefur valið Helenu Kristínu Gunnarsdóttur blakkonu ársins 2019

Helena er 27 ára gömul og hlýtur nafnbótina blakkona ársins í fyrsta sinn.

Hún er uppalin hjá Þrótti í Neskaupstað en er í dag leikmaður KA á Akureyri. Í vor vann KA sinn fyrsta bikarmeistaratitil og varð liðið jafnframt Íslandsmeistari í fyrsta sinn. Helena Kristín var lykilleikmaður KA liðsins í árangri þess á síðustu leiktíð og heldur hún áfram í því hlutverki á yfirstandandi tímabili.

Eftir gott tímabil spilaði Helena Kristín með landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi og var burðarás í liðinu sem vann til bronsverðlauna á leikunum. Einnig hefur Helena Kristín sinnt blakþjálfun bæði hér heima og í bandaríkjunum um árabil.

Helena á að baki 24 landsleiki með íslenska landsliðinu.

Helena Kristín er frábær íþróttakona og mikil fyrirmynd fyrir unga og efnilega blakara.

Blaksamband Íslands óskar Helenu til hamingju með titilinn.